Innlent

Mikilvægar auðlindir gætu leynst á umdeildu svæði á Reykjaneshrygg

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Mikilvægar auðlindir eins og jarðhiti gætu leynst á hafsbotninum á svæði sunnan við Grænland sem bæði Ísland og Danmörk, fyrir hönd Grænlands, gera tilkall til.

Danir fara með utanríkismál fyrir Grænlendinga en dönsk stjórnvöld upplýstu utanríkisráðuneytið um það sl. vetur að við mælingar á landgrunninu suður af Grænlandi hefði komið í ljós skörun við landgrunn Íslands fyrir vestan Reykjaneshrygg.

Svæðið sem um er deilt er ekki stórt en annar hvor málsaðila þarf að gefa kröfur sínar eftir eða ná málamiðlun um markarlínur.

Málefni landgrunnsins eru á borði Tómasar H. Heiðars þjóðréttarfræðings utanríkisráðuneytisins.

„Þessi skörun milli Grænlands og Íslands kom bara upp fyrir nokkrum mánuðum. Við gerum ráð fyrir því að funda síðsumars og vonumst eftir því að finna skjóta lausn á því máli vegna þess að við stefnum að því að gera landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna grein fyrir okkar greinargerð í haust," segir Tómas, en landgrunnsnefndin er aðeins bær til að fjalla um óumdeild svæði á hafsbotninum. Því þarf að ná samkomulagi við Dani áður.

Tómas segir að Danir hafi mælt svæðið á eftir Íslendingum og séð skörun. Þess vegna séu þeir að fara fram á hluta af því svæði sem Íslendingar töldu tilheyra sér. „Og við gerum ráð fyrir því að geta leyst þetta eins og vinaþjóðir eiga að gera," segir hann.

Hvaða auðlindir eru á hafsbotninum á þessu svæði? „Á Reykjaneshryggnum þá hefur verið talið að líklegast sé um jarðhita að ræða, sem getur skipt miklu máli í framtíðinni. Það verður að segjast eins og er með hafsbotninn að það er minna vitað um hann en margt annað og ekki síst þess vegna er mjög mikilvægt að tryggja yfirráð yfir sem víðáttumestum svæðum með framtíðarhagsmuni í huga," segir Tómas H. Heiðar. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×