Lífið

Miðum og litapúðri bætt við The Color Run vegna ásóknar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Nóg var af púðri þegar hlaupið var í Tórinó fyrr í mánuðinum.
Nóg var af púðri þegar hlaupið var í Tórinó fyrr í mánuðinum. vísir/getty
Aðsókn í The Color Run hefur verið meiri en skipuleggjendur höfðu þorað að vona og hefur því verið gripið til þess ráðs að bæta við miðum og litadufti til að mæta auknum fjölda þátttakenda.

„Í okkar tilfelli þá er þetta ekkert bara spurning um að selja eins mörgum og við getum í hlaupið því þetta er ekkert hefðbundið hlaup. Við þurfum að eiga nægilega mikið af litapúðri fyrir alla hlaupara og vorum búin að panta 6 tonn af litapúðri sem eru á leiðinni til landsins frá Indlandi,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandi.

Eitt kílógramm af púðri þarf á hvern og einn þátttakanda í hlaupinu og úr því að þátttakendur var fjölgað þurfti einnig að flytja inn meira púður. Skráningarnar tóku kipp fyrir nokkrum dögum og í kjölfarið hófst vinna við að fá meira púður til landsins.

„Það var orðið of seint að flytja það inn frá Indlandi en sem betur fer áttu nágrannar okkar í Skandinavíu nóg af púðri til að geta sent eitt auka tonn til okkar,“ segir Davíð og bætir við að miðað við skráningar síðustu daga muni auka miðarnir klárast áður en langt um líður.

Hlaupið fer fram 6. júní í miðbæ Reykjavíkur en rás- og endamark verður í Hljómskálagarðinum. Miða má nálgast inn á Miði.is.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×