Fótbolti

Messi segist saklaus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Lionel Messi heldur enn fram sakleysi sínu í skattamáli sínu á Spáni en hann hefur ásamt föður sínum, Jorge, verið ákærður fyrir skattsvik.

Feðgarnir eru sakaðir um að hafa svikist undan því að greiða skatt af launum Messi á árunum 2007-2009 með því að notast við skattaskjól í Belize og Úrúgvæ.

Óvíst er hvenær réttarhöldin fram en líklegt er að Messi yngri verði kallaður til sem vitni. Hann hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu.

Málið hefur verið í dómskerfinu á Spáni í tvö ár og hafa þó nokkrir dómarar komið að því. Á dögunum fór saksóknari fram á að málið gagnvart Lionel Messi yrði látið niður falla en dómarinn féllst ekki á það og sagði að það væri rökstuddur grunur um að báðir aðilar hefðu gerst brotlegir.

Yfirlýsing birtist á heimasíðu Barcelona í gær þar sem félagið hét fullum stuðningi sínum við Messi og fjölskyldu hans.

Messi og faðir hans munu hafa greitt skattayfirvöldum á Spáni meira en fimm milljónir evra eftir að málið kom upp en það nær yfir þá upphæð sem þeir eru sakaðir um að hafa skotið undan auk vaxta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×