Fótbolti

Messi kom Börsungum til bjargar með draumamarki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Messi skorar beint úr aukaspyrnu.
Messi skorar beint úr aukaspyrnu. Vísir/Getty
Lionel Messi kom Barcelona til bjargar gegn Villarreal í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur 1-1.

Nicola Sansone kom Villarreal yfir með lúmsku skoti á 50. mínútu og það mark virtist ætla að duga Gula kafbátnum til sigurs.

Börsungar sóttu án afláts það sem eftir lifði leiks en ekkert gekk upp við mark Villarreal.

Varnarmenn Villarreal beittu öllum brögðum og Bruno varði m.a. skot frá Messi með hendi á 72. mínútu. Augljós vítaspyrna en dómari leiksins dæmdi ekki neitt. Mínútu síðar skaut Messi svo í stöngina.

 

Argentínumaðurinn átti svo síðasta orðið. Á lokamínútunni fékk Barcelona aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig. Messi steig fram og skoraði með glæsilegu skoti upp í markhornið. Lokatölur 1-1.

Barcelona er í 3. sæti deildarinnar með 35 stig, fimm stigum á eftir toppliði Real Madrid sem á auk þess leik til góða. Sevilla er í 2. sæti með 36 stig. Villarreal er í 5. sætinu með 30 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×