Innlent

Meirihlutar tilkynntir í vikunni

ingvar haraldsson skrifar
Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Dagur B. Eggertsson og Sóley Tómasdóttir vonast til að tilkynna nýjan fjögurra flokka meirihluta í Reykjavík fyrir föstudaginn.
Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Dagur B. Eggertsson og Sóley Tómasdóttir vonast til að tilkynna nýjan fjögurra flokka meirihluta í Reykjavík fyrir föstudaginn. vísir/Vilhelm
„Það verða ákvæði um aukið íbúalýðræði og meira gegnsæi í stjórnsýslu“ segir Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í Reykjavík, um málefnasamning nýs meirihluta Bjartar framtíðar, Vinstri-grænna, Samfylkingar og Pírata í Reykjavík.

Oddvitar framboðanna fjögurra gera ráð fyrir að málefnasamningurinn verði undirritaður áður en heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hefst á fimmtudaginn og stefnumál meirihlutans verði kynnt í kjölfarið.

Í sjö af tíu stærstu sveitarfélögum landsins stefnir í að Sjálfstæðisflokkurinn verði í meirihluta.

Á laugardaginn var nýr meirihluti Sjálfstæðiflokksins og Bjartar framtíðar kynntur í Kópavogi. Ármann Kr. Ólafsson mun halda áfram sem bæjarstjóri.

Sömu flokkar stefna að því að tilkynna meirihlutasamstarf í Hafnarfirði í dag. Þar verður starf bæjarstjóra auglýst til umsóknar.

Í Fjarðabyggð var áframhaldandi meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins einnig kynnt á laugardaginn.

Framhald verður á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna í Mosfellsbæ. Samstarfið verður formlega kynnt á fulltrúaráðsfundi Sjálfstæðismanna í kvöld. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þó hlotið meirihluta bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ í tveimur síðustu kosningum.

Á höfuðstað Norðurlands, Akureyri, stefna Framsóknarflokkurinn, L-listinn og Samfylking einnig á að kynna meirihlutasamning í dag.

Gunnar Þórarinsson, oddviti Frjáls afls í Reykjanesbæ, segir meirihlutaviðræður Beinnar leiðar, Samfylkingarinnar og Frjáls afls ganga vel. Gunnar á von á því að málefnasamningur verði kynntur í vikunni.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk meirihluta bæjarfulltrúa í Garðabæ, Árborg og á Akranesi.

Á Akranesi fékk Sjálfstæðisflokkurinn fimm fulltrúa af níu með einungis 41 prósent atkvæða. Ólafur Adolfsson, oddviti Sjálfstæðismanna á Akranesi, gerir ráð fyrir því að fulltrúi Bjartar framtíðar muni bætast við meirihluta Sjálfstæðisflokksins á næstu dögum.

Í Garðabæ verður Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta líkt og síðustu áratugi. Flokkurinn fékk sjö bæjarfulltrúa af ellefu.

Sjálfstæðisflokksins í Árborg hlaut 51 prósent atkvæða og fimm bæjarfulltrúa af níu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×