Skoðun

Meira ruglað

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, heldur áfram að þvæla umræðuna um félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík. Í stað þess að viðurkenna að hann hafi hlaupið á sig þegar hann sagði borgarstjóra bulla þá ruglar hann umræðuna með því að snúa tölum á hvolf og reynir að afvegaleiða lesendur Fréttablaðsins í grein sem birtist nýlega í blaðinu.

Staðreyndin er sú að félagslegum leiguíbúðum hefur ekki fækkað í Reykjavík á undanförnum árum. Þeim hefur fjölgað og þeim hefði gjarnan mátt fjölga hraðar. Halldór horfir fram hjá því að á árunum eftir hrun fóru Félagsbústaðir líkt og önnur í leigufélög í gegnum endurskipulagningu. Að auki tekur Halldór viljandi eða óviljandi ekki tillit til þess að í tengslum við kaup Félagsbústaða á sértækum búsetuúrræðum af ríkinu 2011 þegar málaflokkur fatlaðs fólks færðist til sveitarfélaganna var byrjað að telja þau sérstaklega og flokka í skrám félagsins. Fram að því voru íbúðirnar taldar með almennum íbúðum. Almennum leiguíbúðum fækkaði því ekki árið 2011 heldur var hætt að telja sértæk búsetuúrræði sem almennar leiguíbúðir.

Í gögnum frá Félagsbústöðum sem sýnir eignasafn félagsins má meðal annars sjá að árið 2005 voru félagslegu íbúðirnar 1.739 talsins, þar af 1.567 almennar félagslegar leiguíbúðir. Í september nú í ár var 2.351 íbúð í eignasafni Félagsbústaða. Á um áratug fjölgaði úrræðunum þeim um 612, þar af 109 á síðustu tveimur árum og af þeim voru 99 almennar félagslegar leiguíbúðir. Þrátt fyrir góðan vilja þá getur Halldór ekki horft fram hjá þessum staðreyndum.

Halldór verður auk þess að sætta sig við það að ef bæjarfélögin í kringum Reykjavík ættu hlutfallslega jafn margar félagslegar íbúðir og Reykjavík væri hægt að mæta allri þörf fyrir félagslegt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Félagslegar íbúðir í Reykjavík eru til dæmis hlutfallslega átta sinnum fleiri í borginni en í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

Halldór bendir gjarnan á nágrannasveitarfélög Reykjavíkur þegar það hentar hans málflutningi en kýs að horfa algjörlega fram hjá því þegar kemur að félagslegu húsnæði. Af hverju skyldi það vera?



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×