Innlent

Meira en helmingur þjóðarinnar vill kosningar í vor

Meirihluti landsmanna vill að þing verði leyst upp og boðað til alþingiskosninga í vor. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Stöðvar tvö og Fréttablaðsins. Um tuttugu prósent þeirra sem styðja ríkisstjórnina vilja kosningar.

Hringt var í átta hundruð manns sem valdir voru með slembiúrtaki úr þjóðskrá dagana 8. og 9. febrúar.

Spurt var: Á að leysa upp þing og boða til alþingiskosninga í vor og tóku 86 prósent afstöðu til spurningarinnar.

Í heild sögðust 56 prósent svarenda já og 44 prósent sögðu nei. Hlutfallið er það sama hjá bæði konum og körlum.

Þegar litið er á afstöðu eftir stjórnmálaflokkum sést að stjórnarflokkarnir tveir Samfylking og Vinstri grænir vilja síst að boðað verði til kosninga, þó eru 20 prósent í hvorum flokki sem vilja leysa upp þing og kjósa á ný.

Það kemur lítið á óvart að stjórnarandstöðuflokkarnir vilja fá kosningar núna í vor eða 70 prósent framsóknarmanna, yfir 80 prósent sjálfstæðismanna og 75 prósent þeirra sem ætla að kjósa Hreyfinguna.

Athygli vekur að einungis þriðjungur kjósenda Bjartrar Framtíðar, framboðs Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins vilja ganga til kosninga strax í vor á meðan tæp 70 prósent kjósenda Samstöðu, flokks Lilju Mósesdóttir, vilja kosningar sem fyrst.

Þá vilja tæp 60 prósent kjósenda á aldrinum 18 til 49 ára kjósa fyrr á móti 53 prósentum þeirra sem eru eldri en fimmtíu ára.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×