Innlent

Með ólíkindum hvað íslenska kindin þolir

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Grjótharðar kindur.
Grjótharðar kindur.
Kindur geta lifað grafnar í fönn jafnvel svo vikum skipti án matar. Þetta segir ráðunautur hjá Bændasamtökunum enda sé íslenska sauðkindin með harðgerðustu kindum í heimi.

Almannavarnarástandi var aflétt á Norðausturlandi seint í gærkvöldi. Leit stendur þó enn yfir af fé. Undanfarna daga hafa leitarsveitir fundið fjölda kinda á lífið þrátt fyrir að þær hafi verið grafnar undir fönn. Þessar myndir tók til að mynda Elías Frímann Elvarsson úr björgunarsveitinni á Húsavík af því þegar þeir Ómar Örn Jónsson áðu að grafa upp kind úr við hraundrýli í Gæsafjöllum. Ólafur Dýrmundsson hjá Bændasamtökunum þekkir íslensku sauðkindina vel og segir það ekki koma sér á óvart að svo margar kindur hafi lifað hremmingarnar af.

„Við vitum að þetta er allavega með harðgerðustu kynum í heimi það er alveg ljóst. Þetta er norður-evrópskt stuttrófufé sem kallað er og það er þekkt fyrir hvað það er harðgert. Það er með mjög góða ull líka sem að hlífir því vel í vondum veðrum," segir Ólafur Dýrmundsson.

Hann segir mörg dæmi þess að kindur hafi lifað grafnar í fönn í marga daga og jafnvel svo vikum skipti. „Það hefur komist upp í einhverjar vikur, kannski tvær þrjár vikur," segir Ólafur.

Hann segir því rétt að halda leit áfram því enn sé von. „Það er allavega ekki ástæða til annars en að leita áfram eitthvað eftir því sem menn geta," segir Ólafur og bætir við: „Við ákveðin skilyrði þá getur hún lifað mjög lengi. Hún hefur snjóinn, þaðan kemur vatnið en hún náttúrulega verður svöng en það er ólíklegt að hún nái í nokkuð til þess að éta. Það er náttúrulega þekkt að þær éti ull, það kemur fyrir."

Ólafur segir það með ólíkindum hvað þolið er mikið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×