Innlent

Markmiðið að útrýma lifrarbólgu C

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Gamla meðferðin gegn lifrarbólgu C felst í vikulegum sprautum í allt að ár. Nýja meðferðin er í töfluformi og tekur fáeinar vikur.
Gamla meðferðin gegn lifrarbólgu C felst í vikulegum sprautum í allt að ár. Nýja meðferðin er í töfluformi og tekur fáeinar vikur. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Nýju átaki til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi og stemma stigu við útbreiðslu sjúkdómsins verður hleypt af stokkunum undir lok ársins eða í síðasta lagi í byrjun næsta árs. Átakið er samstarfsverkefni heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead sem leggur til lyfin. Lyfin kosta 7-13 milljónir á hvern sjúkling og fá 95-100 prósent sjúklinga bata. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja til 150 milljónir króna á ári í blóðrannsóknir og aðra þjónustu sem tengist meðferðinni.

Öllum sem greinst hafa með veiruna verður boðin fræðsla, meðferð og eftirfylgni og þar með verður lágmörkuð hætta á nýjum tilvikum sjúkdómsins með smiti milli manna. Á Íslandi eru kjöraðstæður til að ráðast í slíkt verkefni þar sem samfélagið er lítið, þekking er fyrir hendi og nauðsynlegir innviðir heilbrigðiskerfisins.

Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifrarlækninga á Landspítalavísir/stefán
Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifrarlækninga á Landspítala, hefur haft forystu um innleiðingu átaksverkefnisins sem hefur verið í undirbúningi síðastliðið ár.

„Hingað til hefur meðferð við lifrarbólgu C tekið frá hálfu ári upp í eitt ár með vikulegum sprautum á lyfinu inter­feron. Það eru miklar aukaverkanir af meðferðinni, svo sem þreyta, þunglyndi, vöðva- og liðverkir og svefntruflanir, og stundum hefur þurft að stöðva meðferð vegna þeirra. Einnig er árangurinn eingöngu um 75 prósent,“ segir Sigurður.

Nýja lyfjameðferðin tekur eingöngu nokkrar vikur og aukaverkanir eru litlar sem engar. Nú þegar hefur lyfjameðferð hafist meðal sjúklinga sem eru verst settir og settir í forgang. Aðrir sjúklingar sem ekki eru í forgangi en munu nú fá meðferðina einnig finna þó mikið fyrir sjúkdómnum.

„Lifrarbólga C hefur mikil áhrif á daglegt líf og það er klárt að fólk býr við verulega skert lífsgæði.“

Var gjörsamlega brotin

Karlotta Dúfa Markan hefur undanfarið eitt og hálft ár staðið í ströngu. Síðasta árið hefur hún verið að jafna sig á lyfjameðferð við lifrarbólgu C og hálft ár þar á undan var hún í vikulegum sprautum. Hún fagnar nýja lyfinu innilega fyrir aðra sjúklinga.

„Þetta eru flottar fréttir. Það þarf ansi sterk bein til að ganga í gegnum hina meðferðina enda veit ég um marga sem hafa gefist upp á meðferðinni. Ég er heppin, á góða að og gat leyft mér að taka alveg eitt og hálft ár í að vera hálf manneskja. Það eru ekki allir í þeirri stöðu.“

Karlotta missti hárið í meðferðinni, var með mikla bein- og höfuðverki og svo tók meðferðin á andlega.

„Maður er svo brotinn. Maður hefur engan styrk eða þrótt og er ólíkur sjálfum sér. Ég er fyrst núna farin að kannast við sjálfa mig. En fyrir mér var það þess virði – meðferðin gekk vel og ég er útskrifuð. En ég er búin að þurfa að hafa gífurlega mikið fyrir þessum bata.“

Þórarinn Tyrfingsson
Mikilvægt að koma í veg fyrir smit

SÁÁ er meðal þeirra sem hafa unnið að undirbúningi átaksins. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir hlutverk samtakanna vera að finna lifrarbólgusjúklinga og koma þeim til meðferðar.

„Sjötíu prósent þeirra sem sprauta sig í eitt ár eða lengur fá lifrarbólgu. Það hefur ekki verið hægt að ná niður þessu hlutfalli með fræðslu eða útbreiðslu nála. Það er fullreynt. En þessi lyf og nýja meðferðin gefa raunhæfan og góðan möguleika á að koma í veg fyrir ný tilfelli. Þetta eru að mínu mati stærstu fréttir heilbrigðisþjónustunnar í ár.“

Þórarinn segir þá sem eru í neyslu vera í forgangshópnum. „Hugsunin er að meðhöndla þá fyrst sem eru í mestri hættu á að smita aðra. Því er mikilvægt að finna þetta fólk og koma því í meðferð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×