Íslenski boltinn

Margrét Lára með 13 mörk í fjórum leikjum í Reykjavíkurmótinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Lára er markahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi.
Margrét Lára er markahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi. vísir/vilhelm
Það er ekki hægt að segja annað en að Margrét Lára Viðarsdóttir fari vel af stað með Val eftir heimkomuna frá Svíþjóð.

Landsliðsfyrirliðinn sneri sem kunnugt er heim í haust eftir sjö ára dvöl í atvinnumennsku erlendis og gekk til liðs við Val sem hún lék með áður en hún fór út á sínum tíma.

Liðin í Pepsi-deild kvenna eru nú í óða önn að undanbúa sig fyrir átök sumarsins, m.a. með þátttöku í æfingamótum.

Valskonur taka þátt í Reykjavíkurmótinu og eru komnar í úrslit þess eftir 9-0 stórsigur á HK/Víkingi í undanúrslitunum í gær.

Margrét Lára fór mikinn í leiknum og skoraði hvorki fleiri né færri en fimm mörk. Margrét Lára skoraði tvö fyrstu mörk Vals í leiknum og svo þrjú síðustu mörk liðsins á 15 mínútna kafla í seinni hálfleik.

Margrét Lára er því komin með 13 mörk í fjórum leikjum í Reykjavíkurmótinu en hún skoraði átta mörk í riðlakeppninni.

Margrét Lára skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Vals á Fjölni, bæði mörkin í 2-0 sigri á KR og fernu í 7-0 sigri á ÍR.

Valur hefur unnið alla fjóra leiki sína í Reykjavíkurmótinu með markatölunni 21-0. Í úrslitaleiknum 25. febrúar mæta Margrét Lára og stöllur hennar í Val Fylki sem vann 3-1 sigur á KR í hinum undanúrslitaleiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×