Fótbolti

Maradona: Ábyrgðin hvílir á Messi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi þarf að spila vel í kvöld.
Lionel Messi þarf að spila vel í kvöld. vísir/getty
Diego Maradona setur mikla pressu á samlanda sinn LionelMessi fyrir stórleikinn á HM í Brasilíu í kvöld þar sem Argentína og Holland mætast í seinni undanúrslitaleiknum.

Argentína er komið í undanúrslit í fyrsta skipti síðan 1990, eða síðan Maradona og félagar komust í úrslitaleikinn annað skiptið í röð á Ítalíu. Þar tapaði liðið fyrir vestur-Þýskalandi í úrslitum.

Messi hefur staðið undir væntingum á mótinu og skorað fjögur mörk í fimm leikjum. En pressan verður nú enn meiri því næstbesti maður liðsins á mótinu, Ángel di María, er frá keppni vegna meiðsla.

„Það er Messi að þakka að við erum komnir í undanúrslit í fyrsta skipti síðan 1990 og einn sigur í viðbót færir okkur nær markmiðinu. En það verður ekki auðvelt,“ segir Maradona í viðtali við Times of India.

„Augljóslega hvílir ábyrgðin á Messi sem verður áfram besti leikmaður heims sama hvernig leikurinn fer í kvöld.“

„Er of mikið fyrir einn mann að bera væntingar þjóðar sinnar á herðum sér? Alþjóðlegar íþróttakeppnir snúast um það. Þegar þú tapar svona mikilvægum leik syrgir þjóðin en þegar þú vinnur springur allt úr gleði. Fólkið dansar, hlær, syngur og grætur. Allt því einn fótboltaleikur vannst.“

„Enginn veit þetta betur en Messi. Hann spilar ekki í deildinni heima þannig að horfa á hann í sjónvarpinu er upplifun í Argentínu,“ segir Diego Maradona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×