Erlent

Mannskæðustu flóðbylgjur sögunnar

Flóðbylgjan í Indlandshafi sem dró hátt í hundrað þúsund manns til dauða á annan dag jóla er lang mannskæðasta alda sinnar tegundar. Slíkar bylgjur hafa grandað hundruðum þúsunda í gegnum aldirnar, sérstaklega í vestanverðu Kyrrahafi þar sem jarðskjálftar eru tíðir. Flóð til forna Eðli málsins samkvæmt eru frásagnir af flóðbylgjum fyrri alda óljósar og óáreiðanlegar. Vera má að goðsögur á borð við Nóaflóðið eigi rætur að rekja til raunverulegra hamfaraflóða af völdum jarðskjálfta en slíkar sögur eru afar algengar í fornum trúarbrögðum. Goðsagnakenndar sagnir eru um gífurleg flóð í Eyjahafi um 1500 f.Kr. eftir að eyjan Santorini sprakk en samkvæmt þeim eyddust menningarsamfélög á Krít og við austanvert Miðjarðarhafið. Fyrstu áreiðanlegu heimildir um flóðbylgjur eru úr Eyjahafinu þúsund árum síðar en ekki er vitað hversu marga þær lögðu að velli. Gera má ráð fyrir að þúsundir hafi týnt lífi í flóðbylgjum í kjölfar Lissabonskjálftans 1755. Án efa hafa svo orðið hættuleg flóð í fjarlægum heimshornum fyrr á öldum sem enginn hefur verið til frásagnar um. Indónesar verst úti Flestar mannskæðar flóðbylgjur síðustu tvær aldir hafa orðið til á svæðinu á mótum Kyrrahafs og Indlandshafs enda mætast margir jarðflekar á þessum slóðum. Áður en hörmungarnar á sunnudaginn dundu yfir fólki við Indlandshaf var Japan það land sem orðið hafði fyrir mestu mannfalli af völdum þessa ófögnuðar en síðustu 1500 árin hafa tæplega 70.000 manns farist þar af völdum flóðbylgna. Árið 1896 dóu 27.000 manns í einu vetfangi þegar risaalda skall á Honshueyju en margir íbúar höfðu ákveðið að gera sér dagamun með strandferð einmitt þennan dag. Af öllum þjóðum heimsins eru það hins vegar Indónesar sem harðast hafa orðið fyrir barðinu á flóðbylgjum. Ríflega 45.000 Indónesar eru taldir hafa týnt lífi í hamförunum á sunnudag en fram til þess dags höfðu 50.000 íbúar landsins látist í flóðbylgjum síðastliðnar aldir. Krakatá Ein mannskæðasta flóðbylgja sögunnar varð á Jövuhafi árið 1883 þegar eldfjallaeyjan Krakatá sprakk í tætlur í einhverjum mestu hamförum sögunnar. Tæplega þrjátíu metra háar öldurnar þurrkuðu út alla byggð á nálægum eyjum með þeim afleiðingum að 36.000 manns fórust. Af öðrum mannskæðum flóðum má nefna þau sem urðu í Suður-Kínahafi árið 1782 þar sem 40.000 manns týndu lífi og talsvert nær okkur í tíma eru hörmungarnar við Moroflóa á Filippseyjum þar sem tæplega 8.000 manns létust í flóðum eftir að stór jarðskjálfti varð á Mindanaoeyju. Að lokum má nefna gífurlegar flóðbylgjur sem ollu þó ekki miklu manntjóni þar sem þær urðu á afskekktum stöðum. Þannig myndaðist tröllaukin alda eftir jarðskjálfta við Aljúteyjar undan ströndum Alaska árið 1946. Bylgjan sópaði um koll vita úr járnbentri steinsteypu sem stóð 27 metra yfir sjávarmáli á Unimakeyju en í honum voru fimm manns. Fimm klukkustundum síðar náði aldan til Hawaii og grandaði 159 manns.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×