Innlent

Mannréttindaskrifstofa vill rannsókn á fangaflugi

MYND/Atli Már

Mannréttindaskrifstofa Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af fréttum um að flugvélar sem notaðar eru til leynilegra fangaflutninga hafi farið um íslenska lofthelgi og haft Ísland sem viðkomustað á leið sinni til landa þar sem pyndingum er beitt við yfirheyrslur. Hið algera bann við pyndingum og illri meðferð í þjóðarétti felur einnig í sér algert bann við að flytja fanga til ríkis þar sem hætta er á að hann verði pyndaður eða látinn sæta grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð.

Mannréttindaskrifstofa fer fram á að tafarlaust verði hafin opinber rannsókn á þeim alvarlegu atburðum sem staðhæft er að orðið hafi í íslenskri lögsögu og niðurstöður hennar verði gerðar opinberar. Mannréttindaskrifstofa Íslands skorar á stjórnvöld að uppfylla skyldur sínar samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamþykktum og girða fyrir að erlendir aðilar geti flutt fanga um íslenskt forráðasvæði til staða þar sem hætt er við að mannréttindi verði á þeim brotin. Mannréttindaskrifstofa Íslands hvetur ennfremur stjórnvöld til að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að mannréttindi séu ekki fyrir borð borin í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Aðalfundur Mannréttindaskrifstofu Íslands skorar á Alþingi að tryggja skrifstofunni rekstrarfé á fjárlögum næsta árs. Fundurinn vill ítreka mikilvægi þess að hér á landi starfi öflug og sjálfstæð stofnun sem sinni mannréttindamálum á heildstæðan hátt. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gegnt þessu hlutverki undanfarin tíu ár og það væri mikill skaði fyrir framgang mannréttindastarfs ef sú yrði raunin að skrifstofan þyrfti að hætta starfsemi sinni vegna fjárskorts. Aðalfundur Mannréttindaskrifstofa Íslands skorar einnigá hæstvirta þingmenn að beita sér fyrir því að framlag til Mannréttindaskrifstofunnar verði fast á fjárlögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×