Innlent

Mannlegar hörmungar eins og þær gerast mestar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Fjörutíu manna hópur Íslendinga var sendur til Tælands eftir að flóðbylgjan reið yfir til að hjálpa sænskum ferðamönnum á svæðinu. Þar á meðal var ein kona sem hafði misst alla sína nánustu.

Flugvélin var útbúin sjúkrarúmum.Vísir/Víðir Reynisson
Þúsundir Svía voru í Suðaustur-Asíu þegar flóðbylgjan reið yfir og þáðu sænsk stjórnvöld boð Íslendinga um aðstoð við að koma slösuðu fólki til síns heima. Hátt í fjörtíu Íslendingar flugu frá Íslandi til Bangkok í Tælandi þann 2. janúar 2004 til að sækja þrjátíu og fimm Svía og einn Dana. Um borð voru meðal annars læknar og hjúkrunarfræðingar og voru sett upp átján sjúkrarúm í flugvélinni.

Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, var einn þeirra sem tók þátt í leiðangrinum. Víðir segir marga hafa verið illa farna bæði á sál og líkama. Flestir hafi verið í jólafríi með fjölskyldum sínum þegar flóðbylgjan kom æðandi yfir ströndina í Phuket.

Um fjörutíu Íslendingar fóru til Tælands til að aðstoða.Vísir/Víðir Reynisson
„Þetta var náttúrulega fólk sem hafði misst allt sitt. Ég man eftir konu sem hafði misst alla fjölskylduna og aðrir sem að höfðu lent í að vera mikið slasaðir og liggja mjög lengi úti, “ segir hann. Þá hafi sumir verið rændir.

Víðir segir ferðina hafa haft mikil áhrif á hann og tekið á allan hópinn. „Svona sérstaklega kannski sögurnar þar sem að maður gat svona tengt sig við eins og fólk sem hafði misst börnin sín og annað slíkt,“ segir hann. Víðir segir sögu konunnar sem missti börn sín tvö og mann hafa verið átakanlega. „Þetta voru svona mannlegar hörmungar eins og þær gerast mestar,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×