Fótbolti

Mancini væri til í að þjálfa Ronaldo hjá Portúgal

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mancini
Mancini vísir/getty
Ítalski knattspyrnuþjálfarinn Roberto Mancini segir það mjög freistandi að taka við þjálfun portúgalska landsliðinu í fótbolta og stýra þar Cristiano Ronaldo.

Portúgalska landsliðið er þjálfaralaust og leitar að eftirmanni Paulo Bento sem hætti með portúgalska liðið í síðustu viku.

Mancini hætti með Galatasaray í sumar og leitar að nýju starfi.

„Umfram allt væri mjög gaman að þjálfa lið eins og Portúgal,“ sagði Mancini. „En augljóslega er Ronaldo einn besti leikmaður heims hluti af liðinu sem gerir það frábært.

„Hann skapar mörk í hverjum leik, er einstakur leikmaður og allir þjálfarar myndu vilja vinna með honum,“ sagði Mancini sem var  svo spurður hvor væri betri Ronaldo eða Lionel Messi.

„Þetta er fyndin spurning og sama spurning og var spurð þegar ég lék leikinn. Þá spurði fólk, hvor er betri; Michel Platini eða Diego Maradona?

„Messi og Ronaldo eru ótrúlegar stórstjörnur. Fyrir mér er stóra gleðin í því að fá að sjá þá spila fótbolta.

„Á mínum tíma sáum við frábæra leikmenn í hæsta gæðflokki, Maradona, Platini og Marco van Basten, stórkostlegir leikmenn. Þegar menn komast á þetta stig er erfitt að gera upp á milli þeirra,“ sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×