Innlent

Mál íslenska smyglhringsins tútnar út

Stígur Helgason skrifar
Stórtækur íslenskur fíkniefnasmyglhringur er talinn hafa staðið fyrir innflutningi á 27 kílóum af amfetamíni frá Hollandi til Danmerkur í nóvember 2011. Tveir dæmdir Íslendingar, sem þegar sátu í fangelsi í Kaupmannahöfn, voru handteknir í gær vegna málsins.

Smyglhringurinn var í fréttum í haust, eftir að átta Íslendingar, þrír Danir og einn Frakki voru handteknir í Danmörku, grunaðir um að hafa staðið að smygli á 34 kílóum af amfetamíni í tveimur ferðum frá Hollandi í ágúst og september. Allir mennirnir voru handteknir í Danmörku, fyrir utan einn, sem var handtekinn í Noregi. Þeir sitja allir enn í gæsluvarðhaldi.

Lögregla telur að leiðtogi smyglhringsins sé Guðmundur Ingi Þóroddsson, sem hlaut árin 2000 og 2002 sjö og fimm ára fangelsisdóma hérlendis fyrir e-töflusmygl, og hefur undanfarin ár verið búsettur á Spáni.

Víkur þá sögunni að mönnunum tveimur sem handteknir voru í fangelsinu í gær, að sögn Ekstra bladet í Danmörku. Þeir eru 25 og 37 ára og voru fyrst handteknir í febrúar í fyrra á Kastrup-flugvelli, þá með fimm kíló, um 25 þúsund stykki, af e-töflum í fórum sínum. Í september hlutu þeir svo fimm og átta ára fangelsisdóma fyrir það smygl og hafa setið inni síðan.

Við rannsóknina á íslenska smyglhringnum hafa augu manna beinst í ýmsar áttir, enda er talið að hann hafi starfað lengi og um alla Evrópu, og meðal annars hefur verið horft til þess þegar 27 kílóum af amfetamíni var smyglað til Fjóns 22. og 23. nóvember 2011.

Sá sem tók á móti efnunum þar, 42 ára Fjónbúi, hefur þegar verið dæmdur í tólf ára fangelsi vegna málsins en nú er komið á daginn að lögregla telur að innflutningurinn hafi verið skipulagður af íslenska smyglhringnum og að Íslendingarnir tveir úr e-töflumálinu hafi átt þátt í því.

Þar með hefur mál Íslendinganna vaxið mjög úr því að hverfast um átta Íslendinga og 34 kíló af amfetamíni í það að snúast um tíu Íslendinga og 51 kíló.

Mennirnir tveir voru leiddir fyrir dómara í gær og farið var fram á gæsluvarðhald yfir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×