Innlent

Magnús Ver um símhleranir: Mér varð verulega brugðið

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Magnús Ver var grunaður um stórfellt fíkniefnasmygl sem reyndist svo ekki rétt
Magnús Ver var grunaður um stórfellt fíkniefnasmygl sem reyndist svo ekki rétt Mynd/Úr einkasafni
„Mér varð verulega brugðið þegar ég frétti af því að síminn minn hefði verið hleraður og þá sér í lagi þegar ég komst að því að sími dóttur minnar hefði verið hleraður,“ segir Magnús Ver Magnússon, fyrrverandi aflraunamaður.

Magnús hefur krafið íslenska ríkið um tíu milljónir króna í miska- og skaðabætur fyrir ólögmæta meingerð.

Magnús byggir bótakröfu sína á því að hafa verið rannsakaður af lögreglu í nærri þrjú ár en 1. október árið 2014 var lögmanni Magnúsar tilkynnt um að rannsókn málsins, þar sem Magnús hafði réttarstöðu grunaðs manns, væri lokið.

Var Magnús grunaður um stórfellt fíkniefnasmygl að sögn lögmanns hans, Ólafs Karls Eyjólfssonar, en sá grunur reyndist ekki á rökum reistur og var rannsókn málsins hætt.

„Þetta er gróft brot á friðhelgi einkalífs míns og ég vonast til þess að ríkinu verði gert að greiða mér bætur og þá helst sem víti til varnaðar í framtíðinni, að lögreglan leggi ekki af stað í aðgerðir sem enginn grundvöllur er fyrir,“ segir Magnús.

Þá byggir Magnús kröfu sína á því að rannsókn lögreglu hafi ekki átt rétt á sér og hafi verið tilefnislaus og án rökstudds gruns. Segir hann gögn lögreglu staðfesta með engu móti rökstuddan grun, þar sem einungis hafi verið vísað til þess að lögreglu hefðu borist upplýsingar en þær verið með engu staðfestar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×