Fótbolti

Lyfti bikarnum og ég sat heima með pitsu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Christoph Kramer segist ekkert muna eftir úrslitaleiknum vegna höfuðhöggsins.
Christoph Kramer segist ekkert muna eftir úrslitaleiknum vegna höfuðhöggsins. fréttablaðið/getty
Christoph Kramer átti sannarlega eftirminnilegan dag á sunnudag, er Þýskaland varð heimsmeistari í knattspyrnu eftir sigur á Argentínu, 1-0, í framlengdum úrslitaleik. Kramer var óvænt í byrjunarliði Þjóðverja vegna meiðsla Sami Khedira en þurfti svo að fara af velli um miðjan fyrri hálfleikinn eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg.

Kramer er uppalinn hjá Leverkusen en var í láni hjá Bochum í þýsku B-deildinni frá 2011 til 2013. Hólmar Örn Eyjólfsson kom til félagsins á sama tíma og voru þeir herbergisfélagar í þau tvö ár sem Kramer var hjá Bochum.

„Það var mjög gaman að sjá hann lyfta sjálfum HM-bikarnum á meðan ég sat heima og borðaði pitsu,“ sagði Hólmar Örn og hló. Hann er samningslaus sem stendur og er að skoða sína möguleika.

„Þetta var mjög góður tími hjá Bochum, þó svo að ég hefði kannski viljað spila meira en ég gerði. En þau tilboð sem ég hef fengið hafa ekki verið nógu spennandi til að taka þeim strax. Ég ætla því að vera þolinmóður og bíða fram eftir sumri.“

Hann ber Kramer vel söguna og segir að sér hafi ekki komið á óvart að sjá hann í þýska landsliðshópnum. „Það var hins vegar mjög fyndið að sjá að hann var í byrjunarliðinu. Hans fyrsti byrjunarliðsleikur með landsliðinu og það er í úrslitaleik HM. En hann er rosalega góður leikmaður – með góða tækni og mikla hlaupagetu. Hann á eftir að ná mjög langt,“ segir Hólmar.

Kramer stýrði miðjuspili Bochum ásamt Leon Goretzka, nítján ára leikmanni sem var í láni hjá félaginu frá Schalke, þar sem hann er nú. „Þeir voru báðir frábærir hjá okkur og eiga eftir að láta mikið að sér kveða,“ bætir Hólmar við.

Hólmar fagnaði árangri Þjóðverja mjög, sem og karl faðir hans, Eyjólfur Sverrisson, sem spilaði lengi sem atvinnumaður í Þýskalandi. „Við vorum hæstánægðir og Þýskaland átti þetta skilið, enda langbesta liðið í gegnum alla keppnina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×