Skoðun

Lyf eiga heima í apótekum

Sigurbjörn Gunnarsson skrifar
Að undanförnu hefur verið umræða um hvort selja ætti lausasölulyf í almennum verslunum. Upphaf umræðunnar er komið frá svokölluðum lausasöluhópi SVÞ en í þeim hópi eru fáeinir heildsalar sem flytja inn lausasölulyf. Þeirra markmið er eins og einn heildsalinn orðaði það „að stækka markaðinn“ þ.e. að selja meira. Nú er það svo að lyf eru engin venjuleg vara og jafnvel þó að lausasölulyf fáist keypt í apótekum án lyfseðils eru þau vandmeðfarin bæði hvað varðar meðhöndlun og afgreiðslu. Vissulega eru reglur um sölu lausasölulyfja mismunandi eftir löndum og sum þeirra má kaupa í almennum verslunum erlendis. Mikil umræða hefur hins vegar verið víða síðustu misseri, m.a. á Norðurlöndunum og Bretlandi, um ofnotkun þessara lyfja sem hefur farið vaxandi, einkum verkjalyfja s.s. paracetamols og ibuprofens. Alvarlegir skaðar og jafnvel dauðsföll hafa orðið algengari með auknu aðgengi og aukinni sölu þessara lyfja. Vegna þessa hefur t.d. í Svíþjóð verið hætt sölu paracetamols í töfluformi í almennum verslunum.

Reglulega kemur fram í fjölmiðlum að neysla ýmissa lyfja sé meiri hér á landi en í öðrum löndum og stundum meiri en góðu hófi gegnir. Það væri því að bæta gráu ofan á svart að heimila sölu lausasölulyfja í almennum verslunum sem mundi án efa leiða til stóraukinnar neyslu þeirra. Ég tek undir með Lyfjafræðingafélaginu og fleiri fagaðilum sem hafa bent á nauðsyn faglegrar afgreiðslu lausasölulyfja sem annarra lyfja. Þar að auki má benda á að gott eftirlit þarf að vera með því að ekki séu afgreiddir of stórir skammtar.

Áðurnefndur hópur heildsala lét gera könnun um kaup á lausasölulyfjum sem vitnað hefur verið til í fjölmiðlum. Merkilegasta niðurstaða könnunarinnar, sem reyndar lítið hefur verið getið um, er að 65% svarenda telja mikilvægt að geta fengið ráðgjöf við kaup á lausasölulyfjum og ef þeim sem svara hvorki né er bætt við er þetta yfir 80% svarenda. Ráðgjöf um lyf fæst hjá fagfólki sem starfar í apótekum en ekki hjá unglingum á kassa í stórmarkaði með fullri virðingu fyrir þeim.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×