Skoðun

Lundinn er kominn

Ólafur Darri Ólafsson skrifar
Eins og lóan er boðberi vorsins og góðra tíðinda, er lundinn orðinn boðberi menningarlegrar upplifunar á haustmánuðum ársins. Og það er sannarlega góðra tíðinda að vænta í kvikmyndahúsum borgarinnar. Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, er nefnilega handan við hornið.

Hátíðin er nú haldin í ellefta skiptið og er afar vegleg. Ekki síst vegna þess að hátíðin hefur víkkað út hlutverk sitt sem kvikmyndahátíð og staðsetur sig nokkuð rækilega í umræðunni með umfjöllun sinni um stríðsrekstur í veröldinni. Sérstakt málþing verður haldið í ár undir yfirskriftinni „Stríð og friður“. Þar munu rannsóknarblaðamaðurinn John Pilger meðal annars ræða um samspil stríðsreksturs og fjölmiðla. Palestínska kvikmyndagerðarkonan Suha Arraf mun koma til landsins, og auk þess sem hún mun keppa í flokknum New Vison með mynd sína Villa Touma, mun hún sitja sama málþing og Pilger. Sjálf hefur hún starfað í Palestínu sem fréttamaður og gerði meðal annars stórmerkilega heimildarmynd um stöðu kvenna í Hamas samtökunum og Palestínu.

Það er aðdáunavert að mínu mati að listahátíð eins og RIFF skuli leggja sitt af mörkum til svo mikilvægrar umræðu á þessum víðsjáverðu tímum á sama tíma og maður situr agndofa yfir lestri stríðsfrétta samtímans.

Hátíðin hefur öðlast einstakan sess sem listahátíð í Reykjavík. Ekki síst vegna þess hversu metnaðarfull hún er. Sem dæmi má nefna að stórleikstjórinn Mike Leigh kemur á hátíðina. Og hinn áhugverði leikstjóri, Ruben Östlund, sem kemur frá Svíþjóð. Áður fyrr hafa snillingar eins og Milos Forman og Jim Jarmucsh komið til landsins á vegum hátíðarinnar. Fyrir íslenska kvikmyndaáhugamenn, og ekki síst þá sem eru í bransanum, eru það hrein forréttindi að fá að njóta þess að vera í návígi við slíka listamenn.

Ég er sannfærður um að lundinn muni fljúga hærra en nokkru sinni fyrr í ár. Ég hvet ykkur til þess að koma og njóta kvikmyndalistarinnar í öllu sínu veldi.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×