Innlent

Lúðvik Geirsson hættir sem bæjarstjóri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lúðvík Geirsson hættir sem bæjarstjóri eftir mikla gagnrýni.
Lúðvík Geirsson hættir sem bæjarstjóri eftir mikla gagnrýni.
Lúðvík Geirsson hefur ákveðið að hætta sem bæjarstjóri í Hafnarfirði og var Guðmundur Rúnar Árnason, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, ráðinn í hans stað.

Meirihlutinn í Hafnarfirði hefur verið gagnrýndur töluvert eftir sveitastjórnarkosningarnar í maí fyrir að ráða Lúðvík í starfið þrátt fyrir að hann hafi ekki hlotið kjör sem bæjarfulltrúi í kosningunum.

Í yfirlýsingu sem Lúðvík sendi frá sér segir hann að ákvörðunin um að hætta sé alfarið sín. Hún sé tekin með hagsmuni bæjarfélagsins og bæjarbúa í huga. „Það andóf sem pólitískir andstæðingar meirihlutaflokka bæjarstjórnar hafa staðið fyrir og beinst hafa fyrst og fremst að stöðu minni sem bæjarstjóra í kjölfar nýafstaðinna kosninga mega á engan hátt veikja stöðu sitjandi meirihluta, né heldur skapa óróa og ósamstöðu sem hafnfirskt samfélag þarf síst á að halda um þessar mundir," segir Lúðvík í yfirlýsingunni.

Guðmundur Rúnar Árnason hefur setið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar frá árinu 2002 og var varabæjarfulltrúi næsta kjörtímabil á undan. Á þessum tíma hefur hann meðal annars átt sæti í bæjarráði og verið þar formaður. Hann hefur jafnframt verið formaður Fjölskylduráðs og forseti bæjarstjórnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×