Innlent

Lögreglustjórar leggjast gegn því að ríkislögreglustjóri sinni innra eftirliti með lögreglu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Haraldur Johannesson er ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannesson er ríkislögreglustjóri. Vísir/GVA
Lögreglustjórafélag Íslands leggst alfarið gegn því að ríkislögreglustjóra verði falið innra eftirlit með störfum lögreglu eins og lagt er til í frumvarpi Ólafar Nordal innanríkisráðherra um breytingar á lögreglulögum.

 

Að mati félagsins er um grundvallarbreytingu á stjórnun löggæslu í landinu að ræða sem ekki hafi verið rædd við Lögreglustjórafélagið, hvorki af innanríkisráðuneytinu né af embætti ríkislögreglustjóra.

Þetta kemur fram í umsögn félagsins um frumvarpið. Þar segir að allan faglegan undirbúning vanti fyrir ákvæði sem feli ríkislögreglustjóra að fara með innra eftirlit með störfum lögreglu en í dag er það svo að allir lögreglustjórar á landinu eru með innra eftirlit hjá sér.

Telur Lögreglustjórafélag Íslands að ef setja eigi sérstakt innra eftirlit þá sé tilefni til að kanna hvort að því sé ekki betur komið utan lögreglunnar heldur en innan hennar.

Þá er því hafnað í umsögn félagsins að með lagabreytingunni sé aðeins verið að festa í sessi hlutverk ríkislögreglustjóra.

Um miklar breytingar sé að ræða þar sem innra eftirliti sé bæði veitt mikið vægi og mikið vald þar sem tekið sé fram í greinargerð með frumvarpinu að í því sé byggt á víðari merkingu hugtaksins innra eftirlit. Það nái því einnig til „stjórnunarlegs eftirlits en í ljósi fjárhagslegs sjálfstæðis lögregluembættanna verður þetta eitt meginviðfangsefni innra eftirlit,“ eins og segir í umsögninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×