Innlent

Lögreglumenn fundu endurmarkað lamb

Sauðfé Bændur treysta sér sjaldan til að kæra sauðaþjófnað.Fréttablaðið/Gva
Sauðfé Bændur treysta sér sjaldan til að kæra sauðaþjófnað.Fréttablaðið/Gva
Lögreglan í Borgarnesi rannsakar nú meintan þjófnað á hrútlambi í Skorradal fyrr í haust. Í síðustu viku barst tilkynning um að lambið væri mögulega að finna í girðingu rétt utan við Akranes.

„Það var nýbúið að endurmarka lambið. Fróðir menn töldu sig þekkja gamla markið þar undir og lambinu hefur verið skilað til þess sem tilkynnti um málið í upphafi," segir Theódór Þórðarson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Borgarnesi.

Hann segir eiganda fjárins í girðingunni sem er frístundabóndi ekki hafa gefið haldbærar skýringar á því hvernig lambið komst til hans.

Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, segir að á undanförnum árum hafi verið upplýst um fáeina sauðaþjófnaði auk þess sem grunsemdir hafi vaknað um sauðaþjófnaði vegna lélegra heimta á haustin.

„Ég man hins vegar ekki eftir máli sem hefur endað með dómi jafnvel þótt það hafi verið upplýst. Sammerkt með þessum málum er að menn hafa ekki treyst sér til þess að kæra þar sem um nágranna hefur verið að ræða. En það eru dæmi um að menn hafi náð sáttum um bætur."

Það er mat Ólafs að taka eigi hart á sauðaþjófnaði. „Öll afskipti af búfé og dýrum varða við dýravelferð. Ef mál verða kærð á lögregla að taka þau alvarlega.

Skýrslutaka lögreglu verður að vera vönduð þannig að skýrsla haldi vatni."- ibs



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×