Innlent

Listi Bjartrar framtíðar opinberaður

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Björt Ólafsdóttir mun leiða listann.
Björt Ólafsdóttir mun leiða listann. Mynd/GVA
Björt Ólafsdóttir, formaður Geðhjálpar, mun leiða lista Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi Alþingiskosningum. Heiða Kristín Helgadóttir annar formanna flokksins mun skipa annað sætið.

Björt framtíð ætlar að bjóða fram í öllum kjördæmum og samþykkti fjörutíu manna stjórn flokksins skipan í efstu sæti framboðslistanna þann 12. desember síðastliðinn. Tillögur að efstu sætum voru lagðar fram af sex manna nefnd og samþykkti stjórnin tillögurnar einróma.

En þrátt fyrir að listarnir hafi verið samþykktir voru þeir ekki allir verið opinberaðir strax. Til dæmis hefur hingað til ekki verið gefið út hverir skipi efstu sæti listans í Reykjavíkurkjördæmi norður. Nú er hinsvegar ljóst að efsta sætið mun verma Björt Ólafsdóttir, formaður Geðhjálpar. Björt er tuttugu og níu ára gömul og starfar hún sem ráðgjafi hjá Capacent en hún er sálfræðingur að mennt.

Þetta staðfesti Atli Fannar Bjarkason framkvæmdastjóri flokksins þegar eftir því var leitað í dag. Atli staðfesti ennfremur hverjir muni skipa næstu fjögur sætin og lítur listinn svona út:

Í öðru sæti verður Heiða Kristín Helgadóttir, Eldar Ástþórsson verður í því þriðja, Friðrik Rafnsson skipar fjórða sætið og eins og áður hefur verið greint frá vermir borgarstjórinn Jón Gnarr fimmta sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×