Innlent

Leyft að rannsaka virkjanakosti á ný

Katrín Júlíusdóttir bannaði útgáfu rannsóknarleyfa til 1. febrúar sl.
Katrín Júlíusdóttir bannaði útgáfu rannsóknarleyfa til 1. febrúar sl.
Orkustofnun hefur veitt Landsvirkjun rannsóknarleyfi vegna Skrokkölduvirkjunar, þrátt fyrir ósk Landverndar til iðnaðarráðherra um að útgáfa rannsóknarleyfa yrði áfram bönnuð meðan rammaáætlun væri óafgreidd frá Alþingi. Þetta er fyrsta rannsóknarleyfið sem Orkustofnun veitir eftir að tímabundið bann rann út þann 1. febrúar síðastliðinn.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hafði í fyrrasumar bannað Orkustofnun frekari útgáfu rannsóknarleyfa vegna virkjana og gilti bannið þangað til rammaáætlun hefði verið afgreidd frá Alþingi eða í síðasta lagi til 1. febrúar 2012, eins og það var orðað í fyrirmælum ráðherra til Orkustofnunar. Áform stjórnvalda um að rammaáætlun yrði kláruð frá Alþingi fyrir þá dagsetningu hafa hins vegar ekki ræst og er áætlunin enn í umfjöllun innan ríkisstjórnarflokkanna.

Umhverfisverndarsamtökin Landvernd höfðu vegna þessa skorað á iðnaðarráðherra í lok janúar að banna áfram útgáfu rannsóknarleyfa, þar til rammaáætlun yrði samþykkt, enda væri hætta á því að annars yrði ráðist í rannsóknir með tilheyrandi raski á svæðum með mikið verndargildi og hafði formaður Landverndar sagt í viðtali við vefritið Smuguna að ef opnað yrði fyrir rannsóknarleyfi væri ríkisstjórnin að viðurkenna að hún væri að gefast upp gagnvart þessu brýna verkefni.

Þrátt fyrir þessa áskorun Landverndar er útgáfa rannsóknarleyfa nú hafin á nýjan leik. Fyrsta leyfið fékk Landsvirkjun fyrir helgi til að rannsaka vatnasvið við Hágöngulón vegna fyrirhugaðrar Skrokkölduvirkjunar. Þeirri virkjun er ætlað að beisla nærri 200 metra fallhæð milli Hágöngulóns og Kvíslalóns með allt að 45 megavatta afli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×