Fótbolti

Lennon skoraði dýrmætt útivallarmark á Írlandi | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FH er í fínni stöðu fyrir seinni leikinn gegn Dundalk, írsku meisturunum, eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum á Írlandi í kvöld.

Steven Lennon skoraði mark Fimleikafélagsins er hann jafnaði metin 13 mínútum fyrir leikslok. Lennon gerði þarna sínum gömlu félögum grikk en hann lék 12 leiki með Dundalk árið 2010.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur en FH-ingar unnu sig ágætlega inn í leikinn þótt þeir hafi ekki ógnað marki Íranna mikið.

Staðan var markalaus í hálfleik og allt fram á 66. mínútu þegar David McMillan kom Dundalk yfir eftir sendingu frá Patrick McEleney.

En Íslandsmeistararnir gáfust ekki upp og Lennon jafnaði metin í 1-1 á 77. mínútu þegar hann skoraði sitt þriðja Evrópumark fyrir FH.

Mörkin urðu ekki fleiri og leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli. FH dugar því markalaust jafntefli í seinni leiknum í Kaplakrika eftir viku til að fara áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×