Innlent

Leikskólastjórinn sagður hafa bundið barn í refsingarskyni

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndastofu
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndastofu
Foreldrar leikskólabarns á Kirkjubæjarklaustri hafa leitað til yfirvalda eftir að leikskólastjóri var sakaður um að hafa bundið barnið niður við stól með trefli þegar það átti bágt með að sitja kyrrt og vildi ekki borða mat. Um er að ræða Heilsuleikskólann Kærabæ á Kirkjubæjarklaustri.

Málið komst upp þegar annað barn á leikskólanum greindi foreldrum sínum frá því. Þeir upplýstu foreldra barnsins sem um ræðir um atvikið. Í kjölfarið gengu þeir á leikskólastjórann vegna atviksins sem neitaði að nokkuð slíkt hefði átt sér stað.

Fréttablaðið ræddi í gærkvöldi við einstakling sem varð vitni að atvikinu og staðfesti hann lýsingu barnsins á því. Sá einstaklingur hafði samband við bæjaryfirvöld á Kirkjubæjarklaustri til að fá upplýsingar um hvernig hann ætti að snúa sér í málinu. Í kjölfarið ræddi hann við félagsmálayfirvöld og lýsti atvikinu sem um ræðir.

Að sögn foreldra barnsins er málið komið í ferli hjá sveitarfélaginu og hafa þeir hitt félagsráðgjafa einu sinni vegna þess. Hvert framhald málsins verður er óljóst en foreldrarnir eiga von á að hitta félagsráðgjafann aftur í þessari viku.

Leikskólastjórinn er enn að störfum við skólann. Í samtali við Fréttablaðið neitar hún að hafa bundið barnið niður og furðar sig á ásökunum um slíkt.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, þekkir ekki til málsins en segir það að reyra niður barn gangi gegn ákvæðum barnaverndarlaga.

„Það er alveg ljóst að þetta er afar vond uppeldisaðferð. Þetta er refsing og það er kveðið á um það í lögum að allar refsingar, hvort sem þær eru líkamlegar eða andlegar, eru refsiverðar. Það er ekki að tilefnislausu sem það er sett inn í lögin, allar svona aðferðir eru til þess fallnar að skaða barnið sálrænt og þetta eru uppeldisaðferðir sem eru fráleitar,“ segir hann.

Bragi segir svona aðferðir hafa tíðkast hér á árum áður en hann hefði haldið að þetta myndi ekki sjást í dag.

„Af og til koma upp svona tilvik þar sem starfsfólkið virðist vera ráðþrota í sínum störfum. Það getur verið að börnin sem í hlut eiga séu stjórnlaus og mjög erfitt að höndla þau en þetta er ekki aðferðin til að glíma við uppeldi barna. Það eru allt aðrar aðferðir sem eru viðurkenndar og bera árangur þannig að svona starfsaðferðir eru óásættanlegar,“ segir Bragi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×