Skoðun

Leikskólakennaranám – Öruggt framtíðarstarf

Jóhanna Einarsdóttir skrifar
Leikskólastigið er fyrsta skólastigið í skólakerfinu. Þar fer fram nám sem m.a. leggur grunn að námi á öðrum skólastigum. Auknar kröfur eru nú gerðar til leikskólakennara og fer kennslan fram við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Um þessar mundir standa þessar menntastofnanir, auk mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga, fyrir kynningarátaki með það að markmiði að fjölga vel menntuðum og hæfum leikskólakennurum. Í átakinu sem hlotið hefur heitið „Framtíðarstarfið“ er leitast við að sýna starfið í raunsæju ljósi með stuttum myndböndum og viðtölum við leikskólakennara og nemendur. Auk þess verður ítarlegt fræðsluefni um starfið aðgengilegt á vefsíðunni www.framtidarstarfid.is.

Menntun leikskólakennara

Nám kennara á öllum skólastigum er nú fimm ár skv. lögum frá 2008. Við Menntavísindasvið Háskóla Íslands (MVS) er boðið upp á nokkrar leiðir til að stunda leikskólakennaranám. Fyrstu nemendur í nýju fimm ára meistaranámi verða brautskráðir nú í vor. Nú geta einnig þeir sem lokið hafa B.A.-, B.Ed.- eða B.S.-prófi í öðrum greinum bætt við sig tveimur árum á meistarastigi og fengið réttindi sem leikskólakennarar.

Síðastliðið haust var á vegum MVS lögð fyrir könnun meðal starfsfólks leikskóla og nemenda í framhaldsskólum, þar sem áhugi þeirra á leikskólakennaranámi var kannaður og þeir spurðir að því hvaða þættir hefðu áhrif á námsvalið. Í ljós kom mikill áhugi á stuttu hagnýtu námi. Brugðist hefur verið við þessum niðurstöðum og settar á fót styttri námsleiðir við sviðið. Leikskólakennaranáminu má nú einnig ljúka í ákveðnum þrepum. Hægt er að ljúka tveggja ára diplómanámi eða þriggja ára B.Ed.-námi í leikskólafræði og byggja ofan á það nám þegar hverjum og einum hentar.

Af hverju ætti fólk að sækjast eftir því að gerast leikskólakennarar?

Leikskólakennarar hafa möguleika á að hafa veruleg áhrif á framtíð einstaklinga. Samfélagsleg áhrif þeirra eru mikil.

Námið býður upp á möguleika á framtíðarstarfi þar sem atvinnuleysi þekkist ekki. Nú vantar um 1.300 leikskólakennara á landinu.

Starfið er fjölbreytt og skapandi. Enginn dagur í vinnunni er eins.

Leikskólakennaranámið er sveigjanlegt og áhugavert. Nemendur geta stundað námið í fjarnámi, staðnámi eða hvoru tveggja.

Í leikskólakennaranámi býðst tækifæri til að taka þátt í rannsóknum á leikskólastiginu og þannig hafa áhrif á viðhorf og stefnumótun í málefnum barna.

Líðan barna og nám í leikskóla getur skipt sköpum fyrir framtíð þeirra. Það er því nauðsynlegt að til starfa í leikskólum veljist vel menntað og hæft fólk. Samfélag okkar hefur ekki efni á öðru.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×