Innlent

Leikhússtjórinn fyrrverandi sagður frábær á leiksviðinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Forstöðumaður Njálusetursins á Hvolsvelli og fyrrverandi leikhússtjóri hefur óvænt slegið í gegn í fyrsta hlutverki sínu á leiksviði. Hann þykir fara á kostum sem Hallur grámunkur í leikritinu um Önnu í Stóru-Borg, sem þessa dagana er sýnt í félagsheimilinu Heimalandi.

Þetta eru allt áhugaleikarar hjá Leikfélagi Austur-Eyfellinga sem skjótast upp á svið í frítímanum milli daglegra anna í héraðinu, eins og bóndinn á Hrútafelli, Ármann Fannar Magnússon, skólabílstjórinn Guðrún Inga Sveinsdóttir frá Skógum, sem líka er formaður Leikfélagsins, og svo forstöðumaður Njálusetursins, Sigurður Hróarsson.

Við hittum Sigurð hjá Rútshelli undir Eyjafjöllum þar sem munkurinn sem hann leikur átti að hafa búið. Sigurður segir það alveg til fyrirmyndar hjá leikfélaginu undir fjöllunum að velja sögu úr eigin sveit. Það sé nánast hægt að benda á staðina sem koma fyrir í verkinu út um gluggann á félagsheimilinu sem leikið er í.

Sigurður var áður leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu og hjá Leikfélagi Akureyrar en stígur nú sjálfur í fyrsta sinn á svið og er í leikdómi sagður frábær í hlutverki Halls grámunks. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld mátti sjá Sigurð í hlutverki munksins.

Sigurður á leiksviðinu í félagsheimilinu Heimalandi á móti Bjarna Böðvarssyni, sem leikur Pál, hinn grimma bróður Önnu á Stóru-Borg.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Spurður hvort það sé ekki erfitt fyrir hann, sem fyrrverandi leikhússtjóra, að vera undir stjórn annarra í áhugaleikhúsi svarar Sigurður: 

„Það er eiginlega bara ein leið með það: Að ákveða strax algerlega frá upphafi þá góðu reglu í leikhúsi að það verður einhver einn að ráða. Og í þessu tilviki var það alveg ljóst að það var ekki ég.“


Tengdar fréttir

Anna faldi ástmann sinn í Paradísarhelli

Ástarsaga sem fylgt hefur Eyfellingum mann fram af manni í fimmhundruð ár, sagan um Önnu á Stóru-Borg, vinnumanninn Hjalta og Paradísarhelli, hefur nú í fyrsta sinn verið færð upp á svið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×