Skoðun

Leiðréttum mistökin strax

Ólafur Bjarni Halldórsson skrifar
Sameign okkar allra, Ríkisútvarpið, fer um þessar mundir í kynningarferð um landið þar sem til umræðu eru dagskráin, tæknibúnaður og fjármál stofnunarinnar. Auk þess gefst hlustendum kostur á að spyrja, gagnrýna eða hrósa. Þetta framtak ber að virða eins og annað sem vel er gert. Það kom fram á fyrsta fundinum hér á Ísafirði að starfsemi á landsbyggðinni yrði efld á ný eftir harkalegan niðurskurð og sömuleiðis að að innlend dagskrárgerð og fræðsluefni yrði aukið en dregið úr erlendu afþreyingarefni. Flestir geta tekið undir að þetta sé spor í rétta átt. Ríkisútvarpið hefur frá því að mælingar hófust notið meira trausts en aðrir fjölmiðlar og hlýtur það að teljast helsti styrkur þess.

Varðveitum traustið

Þetta hugtak traust er að öllu jöfnu eitthvað sem byggist upp á löngum tíma en er að sama skapi fallvalt. Til dæmis geta ákvarðanir sem tekst hvorki að skýra né rökstyðja dregið þetta lífsnauðsynlega traust niður fyrir hættumörk.

Ríkisútvarpið okkar býr að góðum tæknibúnaði og húsnæði sem hvort tveggja er nauðsynlegt en fyrst og síðast er það fólkið sem þar starfar sem byggir upp og viðheldur þessari þjóðarstofnun. Ég tala um stofnun og vitna þar til orða mætrar útvarpskonu, Jórunnar Sigurðardóttur, sem fyrir tveimur árum var sæmd verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar. Hún sagði við það tækifæri að útvarpið mætti aldrei verða fyrirtæki heldur ávallt stofnun.

Óútskýrðar uppsagnir

Að sjálfsögðu hefur gengið á ýmsu í áttatíu og fimm ára sögu útvarpsins. Það var hægt að sýna því skilning að grípa þurfti til óvinsælla aðhaldsaðgerða í formi uppsagna fyrstu árin eftir fjármálahrun landsins þegar halli á ríkissjóði náði áður óþekktum stærðum. Nú er engu slíku til að dreifa og því verður að gera þær kröfur til stjórnenda að vandað sé til verka þegar fólk á í hlut. Sjaldan hefur farið af stað önnur eins bylgja andmæla eins og þegar tveimur þekktum og vinsælum útvarpskonum var gert að hætta fyrirvaralaust störfum við útvarpið. Hér er verið að tala um þær Hönnu G. Sigurðardóttur og Sigríði Stephensen sem báðar eiga langan og óumdeilanlega farsælan feril hjá útvarpinu þar sem Hanna hóf störf árið 1984 og Sigríður 1991. Báðar eru þekktar fyrir vönduð vinnubrögð og búa að yfirburða þekkingu í dagskrárgerð. Það er fólk eins og þessar tvær konur sem hafa á löngum ferli skapað útvarpinu okkar það traust sem aldrei verður að fullu metið. Það eru vægast sagt undarleg starfslok þegar fólki sem hefur stundað sína vinnu af alúð og samviskusemi er gert að hætta á deginum án þess að gefa fyrir því neina frambærilega ástæðu.

xxxvísir/gva
Þegar það kemur fram opinberlega að þetta hafi komið „eins og þruma úr heiðskíru lofti“ þá þarf enginn að efast um að hér er um að ræða einhliða ákvörðun þeirra sem fara með vald yfir starfsmannamálum Ríkisútvarpsins. Að þetta sé „liður í skipulags- og áherslubreytingum sem ætlað sé að styðja við ágætis þróun á Rás 1 á undanförnum vetri“ er í besta falli merkingarlaus klisja en þó, hvað þessar konur varðar, meira í ætt við öfugmæli eða hundalógík. Það hefur ekki tekist að skýra hvernig það „styður við ágætis þróun“ að ómetanlegri reynslu, vandvirkni og þekkingu sé umsvifalaust varpað á dyr. Að auki hlýtur það að orka tvímælis að þessi fyrirvaralausa uppsögn standist 12. grein laga um Ríkisútvarpið þar sem kveðið er á um að „málefnalegar ástæður þurfi ætíð að liggja að baki brottrekstri starfsmanna.“ Þessar málefnalegu ástæður hafa ekki komið fram og við sem skiljum ekki þennan gjörning getum því aðeins ályktað sem svo að líklega séu þær langsóttar.

Mannleg mistök

Okkur getur öllum orðið á en þá er yfirleitt sú leið fær að leiðrétta mistök. Eftirfarandi var haft eftir rómverska heimspekingnum Seneca fyrir tuttugu öldum: Errare humanum est, sed in errare perseverare diabolicum, sem má útleggja: Það er mannlegt að skjátlast en að halda fast við mistökin er djöfullegt. Það er því skorað á þá sem ábyrgðina bera að fylgja heilræðum Senecas og draga þessa vanhugsuðu ákvörðun að fullu til baka.

Það dugar hvorki að gera þessa hæfu starfsmenn að óreglubundnum verktökum eða gera þeim að keppa um fyrri störf sín eftir einhverjum óskilgreindum markaðsreglum. Eins og þjóðþekktur maður sagði eitt sinn er honum fannst vegið í knérunn þeirra er ekki gætu komið vörnum við: „Svona gera menn ekki.“ Stjórnendur væru því menn að meiri að afturkalla ákvörðun sem hvorki nýtur stuðnings hlustenda né starfsmanna. Góður skipstjóri réttir stefnuna þegar skipið ber af leið.

Verndum þjóðareignina

Ríkisútvarpið og ekki síst elsti hluti þess, Rás 1, er menningarstofnun sem talar til þjóðarinnar dag og nótt allan ársins hring. Höldum vörð um þau gildi sem hún stendur fyrir. Þá mun hún sem áður sameina okkur á bæði erfiðum og góðum stundum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×