Innlent

Laun hjúkrunafræðinga hækkar um 25 þúsund á mánuði

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Forstjóri Landspítalans ætlar að hækka laun hjúkrunarfræðinga spítalans í samræmi við framlag ríkisstjórnarinnar sama hvort þeir samþykkja hækkunina eða ekki. Laun þeirra hækka um tuttugu og fimm þúsund krónur á mánuði að meðaltali.

Samninganefnd hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum fundaði með fulltrúum spítalans í morgun þar sem kynnt var lokatillaga að lausn á deilu þeirra um endurskoðun stofnanasamnings við spítalann.

Tillagan felur í sér að ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja til fjármagn í tengslum við svokallaða jafnlaunastefnu og er framlagið samkvæmt heimildum fréttastofu yfir fjögur hundruð milljónir króna sem dreifast síðan á þá þrettán hundruð hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá spítalanum miðað við starfsreynslu, ábyrgð og menntun.

„Hjúkrunarfræðingar vilja skoða málið áfram, við viljum koma þessum peningum af stað og ætlum að gera það hvort sem félagið styður okkur í því eða ekki, við viljum auðvitað helst að félagið geri það og vonumst til þess," segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.

Þannig geti spítalinn framkvæmd þessa launahækkun einhliða ef að hjúkrunarfræðingar vilja ekki taka þátt í henni í stofnanasamningi.

„Við ætlum að koma þessum peningum sem ríkisvaldið hefur sett í þetta til þess að hækka laun sem fyrsta skref í jafnlaunastefnu ríkisstjórnarinnar," segir Björn.

Hann vonast til þess að þetta útspil verði nægjanleg hækkun svo þeir 260 hjúkrunarfræðingar sem sagt hafa upp störfum hjá spítalanum og eiga að hætta 1.mars næstkomandi hætti við að yfirgefa spítalann. Tilagan verður kynnt fyrir hjúkrunarfræðingum á mánudagskvöld og munu fulltrúar þeirra svo funda með samninganefndinni á þriðjudag.

„og við vonum að fá svar fljótlega í næstu viku, við munum fara í þetta á næstu dögum að undirbúa þetta og við vonum að stéttarfélagið verði með okkur í þessu," segir Björn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×