Innlent

Landeigendur í Haukadal segja landið ekki til sölu

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Talsmaður Landeigendafélags Geysis í Haukadal segir þeirra hlut í landinu ekki vera til sölu. Ríkið hafi haft tækifæri til að kaupa svæðið árið tvö þúsund og átta en ekki staðið við gerða samninga.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að hún vilji að ríkið eignist allt landið á Geysi í Haukadal en ríkið á 35 prósent af landinu í dag.

„Það sem er þarna innan girðingar ætti að vera í eigu almennings. Það er eðlilegast. Þar sem þetta er skýr og klár náttúruperla," segir Svandís.

Garðar Eiríksson talsmaður Landeigendafélags Geysis, sem stofnað var í síðustu viku, segir ráðherrann hafa rétt á sinni skoðun.

„Lengi var ríkið í viðræðum við okkur landeigendur og 30. apríl 2008 var undirritað tilboð að hálfu ríkisins. Það gat svo ekki staðið við þannig niðurstaðan varð sú að landeigendur tóku til sinna ráða og ætluðu að reyna að verja þessa náttúruperlu á sinn hátt."

Þannig að ykkar hluti er ekki til sölu eins og stendur? „Nei hann er ekki til sölu eins og stendur."

Í því tilboði fólst meðal annars að ríkið legði hitaveitu á svæðinu auk greiðslu og vill Garðar ekki nefna neina upphæð sem ríkið þyrfti að reiða fram til að kaupa hlut landeigenda á Geysi. Þá er hann er ekki sammála Svandísi að það sé varhugavert að landeigendur sem einkaaðilar taki gjald inn á slíka staði.

Hefur hún eitthvað nálgast ykkur útaf þessum málum? „Nei hún hefur ekki nálgast okkur, við erum margoft búin að bjóða ríkið velkomið til þess að ræða okkur á vinnslustigi þessa máls, en það hefur ekki náðst og það er bara gleðilegt að þau lýsa því yfir að þau vilja ræða við okkur, það er bara hið besta mál."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×