Fótbolti

Lagerbäck: Getum ekki falið okkur sem smálið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars á hliðarlinunni.
Lars á hliðarlinunni. vísir/getty
Lars Lagerbäck var yfirvegaður á blaðamannafundi íslenska liðsins eftir leikinn í kvöld.

„Það besta við þetta allt saman er að þeir öðlast reynslu. Ekki bara leikmennirnir heldur allir í kringum liðið. Við vitum hvað við þurfum að gera nú til að ná árangri og getum ekki lengur falið okkur á bak við staðhæfingar að við erum smálið.“

Þetta sagði Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska landsliðsins, á blaðamannafundi íslenska liðsins eftir leikinn gegn Englandi í kvöld. Ísland vann leikinn, 2-1, og komst þar með áfram í 8-liða úrslitin þar sem gestgjafar Frakka bíða.

„Þetta er frábært fyrir Ísland. Og ég get ekki beðið eftir að sitja í stúkunni og styðja þetta frábæra lið,“ sagði hann enn fremur en Lagerbäck mun hætta starfi sínu eftir EM og eftirláta Heimi Hallgrímssyni, meðþjálfara sínum, starfið einn.

„Nú hafa leikmenn farið yfir þessa hindrun og þá verða allar aðrar hindranir minni í samanburði. Sjálfstraustið verður meira og þá verður allt auðveldara,“ skaut Heimir inn í.

„Svo lengi sem þeir halda fótunum á jörðinni,“ sagði Lagerbäck um hæl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×