Innlent

Lækkun veiðigjalda beint í aukna framlegð

Heimir Már Pétursson skrifar
Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra benti á það á Alþingi í morgun að framlegð stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins hefði aukist á síðasta ári um sömu upphæð og stjórnvöld hefðu lækkað veiðigjöldin á fyrirtækið. Þetta fyrirtæki skilaði methagnaði og greiddi eigendum sínum tæpa þrjá milljarða í arð.

Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra gerði nýbirtar afkomutölur HB Granda, stærsta og kvótamesta útgerðarfyrirtækis landsins, að umtalsefni á Alþingi í morgun. Árið í fyrra hafi verið blómlegt hjá fyrirtækinu. Hagnaður hafi aukist um 200 milljónir milli ára og verið 5,5 milljarðar í fyrra. Þá hefði framlegð fyrirtækisins verið 7,5 milljarðar á síðasta ári og aukist um 700 milljónir króna frá árinu á undan.

Steingrímur sagði að þetta væri athygliverð tala í ljósi þess að HB Grandi hefði greitt um 1,8 milljarða í veiðigjöld árið 2013, en þau hefðu lækkað niður í rúman 1,1 milljarð árið 2014.

„Með öðrum orðum framlegðin vex um 700 milljónir, nákvæmlega sömu tölu og greidd veiðigjöld lækka um. Sjö hundruð milljónir króna eru flutt af auðlindarrentu frá þjóðinni til eigenda HB Granda. Sem gera svo vel við sjálfa sig og greiða sér annað árið í röð um 2,7 milljarða króna í arð,“ sagði Steingrímur.

Eigendur HB Granda hefðu fengið um sex milljarða króna greidda í arð á undanförnum tveimur árum en þjóðin langt innan við þrjá milljaðra í veiðigjöldum. Það væri því augljóst að stærstu útgerðarfyrirtæki landsins gætu vel staðið undir hærri auðlindarrentu til þjóðarinnar.

„Ég bendi á að þetta tiltekna fyrirtæki, eins og háttvirtur fyrirspyrjandi minntist reyndar á, er eitt af okkar öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum. Er í gríðarlegum fjárfestingum. Ætli eitt skip sé ekki svona sirka fjárfestingarkostnaður upp á svona fjóra milljarða. Fyrir utan þá fjárfestingu sem er víða í landi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.

Þá greiddi fyrirtækið mikið í laun og sjávarútvegurinn hefði í heild sinni greitt um 30 milljarða í skatta á síðasta ári.

„Um leið eigum við að muna að það eru 620 fyrirtæki í landinu í sjávarútvegi. Þau hin og ég hef hitt mörg þeirra sem hafa sagt að hefðu menn haldið áfram á þeirri braut sem háttvirtur fyrirspyrjandi þegar hann var í ríkisstjórn og stýrði því að hér yrðu lögð á ofurhá veiðigjöld, þá hefðu þau öll farið á hausinn. Þá hefðum við setið hér uppi með fimm Granda-fyrirtæki í landinu. Það er ekki minn vilji að svo sé,“ sagði Sigurður Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×