Innlent

Kynna hjólaskauta við Hörpuna

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimir Roller derby á íslandi.
Meðlimir Roller derby á íslandi.
„Fólk má koma á reiðhjóli, hlaupahjóli, línuskautum, hjólastól eða hverju sem er. Ef vilji er til að prófa bæði línuskauta og hjólaskauta, þá verðum við með eitthvað pörum bæði í Nauthólsvík og við Hörpuna,“ segir Guðný Jónsdóttir, stofnandi Roller derby á Íslandi.

Reykjavíkurborg og Roller Derby Ísland eru í samstarfi ásamt hljómsveitinni White Signal um að halda þrjá hjólaskautaviðburði í sumar. Næstkomandi laugardag verður skautað sjávarsíðuna frá Nauthólsvík og endað fyrir framan Hörpuna þar sem White Signal mun halda uppi fjörinu.

„Þeir sem eru tilbúnir til að skauta svolitla vegalengd þá verða líklega um tveir kílómetrar frá Nauthólsvíkinni í Hörpuna. Þeir sem eru kannski með yngri börn sem treysta sér ekki til að skauta svona langa leið byrjum við klukkan hálf fimm fyrir utan Hörpuna. Þar verður hljómsveit að spila og við lánum skauta til bæði barna og fullorðinna,“ segir Guðný.

„Samkvæmt veðurspá á ekki að rigna, þannig að þetta á allt að ganga upp.“

Roller Derby lið Íslands hefur æft stíft í um ár og hefur nú þegar farið í keppnisferð til Finnlands og á von á tveimur erlendum liðum í heimsókn í vetur.

Þetta er annar viðburðurinn í sumar af þremur og sá þriðji verður hjólaskautadiskó í bílakjallara. „Við gerðum það í fyrra og það heppnaðist mjög vel. Því ákváðum við að stækka þetta aðeins í sumar.“

„Það sem við erum líka að gera er að vekja athygli á hjólaskautaíþróttinni, Roller derby. Nýliðanámskeið munu byrja í haust og við viljum vera sjáanleg til að fá sem flesta í haust.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×