Íslenski boltinn

KSÍ vill að félögin styðji betur við skólasókn yngri leikmanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KSÍ vill stuðla að góðri samvinnu skólakerfisins og fótboltans í framtíðinni.
KSÍ vill stuðla að góðri samvinnu skólakerfisins og fótboltans í framtíðinni. Vísir/AFP
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur samþykkt nýja útgáfu af Leyfisreglugerð KSÍ en það gerði hún á fundi stjórnar KSÍ 27. október síðastliðinn.

KSÍ fer yfir helstu breytingarnar á leyfisreglugerð KSÍ í frétt á heimasíðu sinni en þar eru félögin sem leika í Pepsi-deild karla og Inkasso-deild karla árið 2017, einnig hvött til þess að kynni sér ákvæði reglugerðarinnar ítarlega.

Þátttökuleyfin sem reglugerðin skilgreinir hafa fengið nöfnin A-leyfi og B-leyfi. A-leyfi nær til félaga sem leika í Pepsi-deild karla og/eða Evrópukeppnum félagsliða en B-leyfi nær til félaga sem leika í Inkasso-deild karla.

Nýtt ákvæði hefur nú orðið til varðandi leyfishafa sem hafa áunnið sér þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða. Þau lið eru FH, Stjarnan, KR og Valur á næsta ári.

Það vekur líka athygli að hér eftir eru auknar kröfur settar á leyfisumsækjendur til að styðja við skólasókn yngri leikmanna. Talað er um þær skyldur í grein 16.3.

„Áætlunin verður ennfremur að sýna að leyfisumsækjandi sé skuldbundinn til að styðja markvisst við skólasókn yngri leikmanna, bæði skyldunám og frekari menntun, sbr. eftirfarandi að: a) sérhver yngri leikmaður sem fylgir uppeldisáætluninni geti jafnframt sótt skóla á skólaskylduárum eftir því sem lög gera ráð fyrir, og b) enginn yngri leikmaður sem fylgir uppeldisáætluninni sé hindraður í að halda áfram almennri menntun sinni (akademískri eða starfsmenntun)“.

Það er hægt að lesa útgáfu 3.2 af Leyfisreglugerð KSÍ með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×