Innlent

Kröfur um hafsbotn fyrir Grænland skarast við kröfur Íslands

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins.
Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins.
Danmörk, sem fer með utanríkismál Grænlands, hefur skilað greinargerð um kröfur sínar vegna ytri marka hafsbotns Grænlands utan 200 sjómílna fyrir landsgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Kröfurnar skarast við kröfur Íslands og Kanada.

Svæðið sem um ræðir er samtals um 115 þúsund ferkílómetrar á hafsbotninum 200 mílum frá ströndum Grænlands. Svæðið teygir sig suðvestur til Kanada og austurhluti svæðisins til Íslands.

Landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur það hlutverk að yfirfara greinargerðir strandríkja um ytri mörk hafsbotnsins utan 200 sjómílna og gera tillögur um þau mörk. Hafsbotninn hefur að geyma ýmsar auðlindir sem enn eru ekki full kannaðar. Því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir ríki að fá kröfur sínar viðurkenndar.

Bæði Kanda og Ísland hafa gert kröfur um landgrunnið fyrir landgrunnsnefndinni sem skarast við kröfur danska ríkisins og heimastjórnar Grænlands.

„Danska utanríkisráðuneytið hafði áður upplýst okkur um að landgrunnskröfurnar sköruðust lítillega við landgrunn Íslands vestast á Reykjaneshrygg. Ísland skilaði sinni greinargerð til landgrunnsnefndarinnar vorið 2009 og gert er ráð fyrir að hún verði tekin fyrir á næstu misserum. Embættismenn Íslands og Danmerkur hafa verið í sambandi vegna málsins og skipst á vísindalegum upplýsingum. Gert er ráð fyrir að fundað verði um málið á næstu mánuðum í því skyni að ná samkomulagi um skiptingu hins tiltölulega litla svæðis milli landanna," segir Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins.

Tómas segir að Ísland leggi á það áherslu að málið verði leyst áður en greinargerð þess kemur til afgreiðslu landgrunnsnefndarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×