Innlent

Kröfugerð mótuð fyrir komandi kjarasamninga

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Starfsgreinasambandið hefur lokið við að móta kröfugerð sína fyrir komandi kjarasamninga, og verður hún afhent Samtökum atvinnulífsins á morgun. Formaður SGS segist vera fullur bjartsýni og vonast til að viðræður hefjist um leið og SA hafa lesið kröfugerðina yfir.

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins mun koma saman í Reykjavík á fimmtudag þar sem hafist var vanda við að móta kröfugerð SGS fyrir komandi kjarasaminga, en áður höfðu félögin sent sínar eigin kröfugerðir inn til sambandsins.

Samninganefnd SGS hittist svo á löngum fundi í Karphúsinu á föstudag til að leggja lokahönd á kröfugerðina. Eftir langar umræður samþykkti nefndin samhljóða sameiginlega kröfugerð sem afhent verður Samtökum atvinnulífsins á morgun. Mikill hugur var í fundarmönnum og samstaðan ríkjandi. Björn Snæbjörnsson er formaður Starfsgreinasambandsins.

„Félögin hafa verið með alls konar kannanir á fundi úti í félögunum og svo núna á fimmtudaginn var þá komum við saman og ræddum það sem hafði komið frá félögunum og þannig að það er búin að vera mikil vinna og góð vinna og mikil samstaða,“ segir Björn.

Björn vill ekki tjá sig um innhald kröfugerðarinnar að svo stöddu, en heimildir fréttastofu herma að hún hljómi upp á tugþúsunda króna hækkun lágmarkslauna, sem eru nú 214 þúsund.

„Vonandi fara af stað viðræður um þær kröfur og að reyna að klára samning, hann rennur út núna 28.febrúar þannig að við höfum mánuð til stefnu ef við ætlum að ná að klára samning áður en hinn rennur út. Þannig að ég vona bara að menn fari í þessa vinnu.”

Samtök atvinnulífsins sendu í vikunni frá sér tilkynningu þar sem fram kom að ef laun á vinnumarkaði hækka jafn mikið og laun lækna næstu þrjú árin mun það valda mikilli verðbólgu, gengislækkun krónunnar og verulegri hækkun verðtryggðra skulda. Skuldir heimilanna gætu hækkað um 500 milljarða. Björn gefur lítið fyrir þessi rök.

„Það fer allt af stað og varað við að það megi alls ekki hækka þessi lægstu laun en það heyrist ekki söngur þegar aðrar stéttir fá meira, allt upp í 30 prósenta kauphækkun. Þá er eins og allt sé í lagi en þegar við erum að sækja fyrir okkar folk þá fer allt af stað. Það er alveg ljóst að í okkar félögum er okkar folk tilbúið til að fara í aðgerðir til að fylgja þessum kröfum eftir, þannig að við erum full bjartsýni,” segir Björn 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×