Íslenski boltinn

Kristinn um rangstöðuna: Sóknarmaðurinn á að njóta vafans | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristinn Jakobsson, dómari í leik Víkings og Stjörnunnar í gær, segir að aðstoðardómari sinn hafi látið sóknarmann Stjörnunnar njóta vafans í umdeildu atviki sem átti sér stað í gær.

Undir lok leiksins komst Heiðar Ægisson einn í gegn eftir skyndisókn Stjörnnar sem vann 1-0 sigur. Alan Lowing braut á honum sem aftasti varnarmaður og uppskar því rautt spjald.

Farið var yfir aðdraganda þess í Pepsi-mörkunum í gær eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir ofan.

„Samkvæmt laganna bókstaf getur leikmaður talist rangstæður þó svo að aðeins hluti líkamans er kominn yfir á vallarhelming andstæðingsins,“ sagði Kristinn í samtali við Vísi í dag. „Það á reyndar ekki við hendurnar sem teljast almennt ekki með þegar verið er að túlka rangstöðureglur.“

„En leikmaður sem er búinn að taka skref yfir miðlínunna getur talist rangstæður,“ ítrekaði hann en af myndefninu að dæma átti að dæma Heiðar rangstæðan.

„Þetta einstaka atvik gerðist mjög hratt og var það mat aðstoðardómara míns að hann var ekki fyllilega viss um að leikmaðurinn hafi verið kominn yfir miðlínuna. Hann lét því sóknaraðilann njóta vafans,“ sagði Kristinn.

„Dómurum er uppálagt að láta sóknaraðilann njóta vafans í slíkum tilfellum. Þannig eru einfaldlega áherslur dómaranefndar UEFA.“

Kristinn bendir þó á að stundum er ekki hægt að stóla alfarið á sjónvarpsupptökur til að skera úr um slík nákvæmisatriði. „Ég er þó ekki að tala um þetta ákveðna atvik en staðreyndin er sú að það er oft erfitt að sjá nákvæmlega gerðist út frá því sem sést í sjónvarpinu.“

Haraldur Haraldsson, framkvæmdarstjóri Víkings, sagði í viðtali við Fótbolti.net í dag að Víkingar vilji að rauða spjaldið sem Lowing fékk verði fellt niður.

„Það gengur ekki að svona augljós mistök aðstoðardómara geti haft þetta miklar afleiðingar,“ sagði Haraldur en samkvæmt knattspyrnulögum er ekki hægt að fella niður rautt spjald. Það er því ljóst að Lowing er á leið í tveggja leikja bann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×