Íslenski boltinn

Kristinn Freyr genginn í raðir Sundsvall

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristinn Freyr Sigurðsson er farinn í atvinnumennskuna.
Kristinn Freyr Sigurðsson er farinn í atvinnumennskuna. vísir/anton brink
Kristinn Freyr Sigurðsson, besti leikmaður Pepsi-deildar karla 2016, er genginn í raðir sænska úrvalsdeildarliðsins Sundsvall frá Val. Þetta kemur fram á heimasíðu sænska liðsins.

Kristinn Freyr skrifaði undir þriggja ára samning við sænska félagið sem hefur verið mjög áhugasamt um að fá hann. Liðið hafnaði í 13. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og var einu stigi frá því að fara í umspil um að halda sæti sínu.

Þessi 24 ára gamli uppaldi Fjölnismaður fór á kostum í Pepsi-deildinni í sumar en hann skoraði fjórtán mörk og fékk silfurskóinn. Hann var eftir tímabilið kjörinn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar af leikmönnum hennar.

Kristinn Freyr fór til Sundsvall á dögunum að skoða aðstæður auk þess sem hann ræddi við þjáflara liðsins. Hann var með tilboð frá sænska liðinu í höndunum sem og Íslandsmeisturum FH og Val þar sem hann hefur spilað undanfarin ár. Östersund í Svíþjóð sýndi honum einnig áhuga.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að spila með Sundsvall. Mér líst vel á borgina, félagið, leikmennina og þjálfarann. Ég held að þetta sé lið sem reyni að spila fótbolta sem hentar mér og því tel ég þetta rétta skrefið fyrir mig og minn feril,“ segir Kristinn Freyr Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×