Enski boltinn

Koscielny í viðræðum um nýjan samning

Laurent Koscielny
Laurent Koscielny Vísir/Getty
Arsenal vinnur þessa dagana hörðum höndum að semja við Laurent Koscielny, miðvörð liðsins og franska landsliðsins um nýjan samning. Talið er að fjöldi stórliða bíði áhugasöm eftir fréttum af samningarviðræðunum.

Koscielny sem er á sínu fjórða tímabili hjá Arsenal hefur bætt sig með hverju tímabili. Liðið hefur saknað hans undanfarnar vikur en hann hefur staðið vakt sína frábærlega við hlið Per Mertesacker á þessu tímabili.

Arsenal hefur verið að endurnýja samninga lykilleikmanna undanfarið og hafa leikmenn líkt og Jack Wilshere, Theo Walcott og Aaron Ramsey allir skrifað undir nýja samninga nýlega. Chelsea, Manchester United, Bayern Munchen og PSG eru öll talin vera að fylgjast með samningamálum Koscielny.

Koscielny sem var orðaður við Barcelona á sínum tíma hafnaði Katalóníurisunum og skrifaði undir nýjan samning við Arsenal. Það reyndist aldeilis happafengur fyrir Skytturnar þar sem hann skaut liðinu í Meistaradeildarsæti í lokaleik síðasta tímabils.

Koscielny verður eflaust í hjarta varnar Arsenal það sem eftir lifir tímabilsins ásamt því að búist er við að hann verði í eldlínunni með franska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×