Innlent

Könnun í Reykjanesbæ gerð upp á nýtt

Starfsmaður 365 miðla varð í gærkvöldi uppvís að því að brjóta verklagsreglur við gerð könnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2 á fylgi flokka í Reykjanesbæ. Starfsmaðurinn talaði inn í talhólf að minnsta kosti eins einstaklings sem lent hafði í úrtaki könnunarinnar og lét eins og hann svaraði fyrir hann.

Málið er litið mjög alvarlegum augum innan 365, að sögn Ólafs Þ. Stephensen, ritstjóra 365 frétta. Starfsmanninum hefur verið sagt upp störfum vegna alvarlegs trúnaðarbrests og hefur fréttastofa 365 miðla ákveðið að hætta gerð könnunarinnar og eyða þeim svörum sem þegar hafði verið aflað.

„Trúverðugleiki kannana okkar skiptir mjög miklu máli fyrir fréttastofuna. Það er enginn annar kostur í stöðunni en að bregðast hart við þegar kemur í ljós að verklagsreglum við gerð skoðanakannana er ekki fylgt,“ segir Ólafur. „Kannanir Fréttablaðsins og Stöðvar 2 hafa reynst nákvæmar, farið nálægt kosningaúrslitum og verið í samræmi við niðurstöður kannana annarra viðurkenndra könnunarfyrirtækja. Við viljum tryggja áframhaldandi gott orðspor þessara kannana.“

Í kjölfar þessa atviks verður farið rækilega yfir allt verklag við gerð skoðanakannana 365 miðla. Skoðanakönnunin í Reykjanesbæ verður gerð á nýjan leik og niðurstöður birtar eftir nokkra daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×