Innlent

Kínverjar reyndu að stöðva sýningu Tíbet-myndar

Kínverska sendiráðið á Íslandi gerði tilraun til að fá Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) til þess að hætta við sýningar á bandarísku heimildarmyndinni When The Dragon Swallowed The Sun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá hátíðinni en Hrönn Marínósdóttir var boðuð á fund í sendiráðinu fyrir nokkrum vikum þar sem óskað var eftir því að hætt yrði við sýningar á myndinni. Þeirri beiðni var hafnað en myndin fjallar um málefni Tíbet og samskipti þeirra við Kínverja.

Þá mun sendiráðið einnig hafa borið erindið upp við utanríkisráðuneytið, með óformlegum hætti að því er segir á fréttavefnum phayul.com.

When The Dragon Swallowed The Sun verður sýnd í fyrsta skipti á RIFF í kvöld, en sýningin fer fram í Iðnó kl. 20:30. Þá verða sýningar á myndinni annað kvöld og á miðvikudagskvöld í Bíó Paradís, og hefjast báðar sýningar kl. 22. Þá verður ein sýning á myndinni í Hafnarhúsinu hinn 1. október kl. 16.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×