Bílar

Kia Soul frumsýndur í raf- og dísilútgáfum

Finnur Thorlacius skrifar
Kia Soul EV rafmagnsbíllinn hefur 212 km drægni.
Kia Soul EV rafmagnsbíllinn hefur 212 km drægni.
Kia Soul verður frumsýndur bæði í raf- og dísilútgáfum hjá bílaumboðinu Öskju nk. laugardag, 29. nóvember kl. 12-16. Kia Soul er nettur fjölnotabíll sem er byggður á undirvagni hins vinsæla Kia cee’d. Kia Soul er hábyggðari en fólksbílar af svipaðri stærð sem þýðir að auðvelt er að stíga inn og út úr honum auk þess sem sætin eru há og útsýni gott.

Dísilútgáfan af Kia Soul er með 1,6 lítra dísilvél sem skilar bílnum 128 hestöflum. Kia Soul EV er rafmagnsútgáfan af bílnum og hefur 212 km drægni við bestu hugsanlegar aðstæður. Kia Soul EV er knúinn 81,4 kw rafmótor sem skilar 111 hestöflum og 285 NM togi til hjólanna. Bíllinn er innan við 12 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið en hámarkshraði hans er 145 km/klst. Í bílnum er búnaður sem endurnýtir hemlunarorku og skriðorku og skilar henni til rafgeymanna.

Heimahleðslustöð fylgir Soul EV en það tekur um 4-5 klukkustundir að hlaða bílinn í henni. Með kapli sem fylgir bílnum og tengist í venjulega innstungu tekur 11-14 klst að fullhlaða. Með 100 kílóvatta hraðhleðslustaur tekur aðeins 25 mínútur að hlaða bílinn upp í 80% hleðslu.

Báðar útgáfurnar af Kia Soul eru eins og allir nýir Kia bílar með 7 ára ábyrgð, líka á rafhlöðu. Kia Soul EV er afar vel búinn, m.a. með íslensku leiðsögukerfi, bakkmyndavél, nálægðaskynjurum að framan og aftan, leðursætum, hita í sætum frammí og afturí. Kia Soul EV er einnig vel búinn öryggisbúnaði og m.a. með svonefndum VESS-búnaði er sendir frá sér vélarhljóð til viðvörunar á undir 20 km/klst ferð og ávallt þegar bakkað er. Þessi búnaður er m.a. til að auka öryggi gangandi vegfarenda.

Boðið verður upp á léttar veitingar í Öskju í tilefni frumsýningarinnar og gestum gefst kostur á að reynsluaka báðum útfærslum af Kia Soul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×