Innlent

Kettir ekki sniðug jólagjöf: „Ég er ekki jólagjöf sem fæst skilað eða skipt“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Halldóra Ragnarsdóttir, formaður kattavinafélagsins og rekstrarstjóri Kattholts.
Halldóra Ragnarsdóttir, formaður kattavinafélagsins og rekstrarstjóri Kattholts. vísir/ernir
„Það er ekki heppilegt að gefa ketti í jólagjöf,“ segir Halldóra Ragnarsdóttir, formaður kattavinafélagsins og rekstrarstjóri Kattholts.

Í facebook færslu frá Kattholti kemur fram að kettir séu ekki sniðug jólagjöf. „Ég er ekki jólagjöf sem fæst skilað eða skipt,“ segir í færslunni.

Þar kemur einnig fram að mörgum kettlingum sé reynt að skila á ný til Kattholts eftir ármót.

„Það er kannski verið að gefa fólki kött í jólagjöf sem er kannski ekki tilbúið í að taka við honum á þeim tíma. Jólin eru oft mikill stresstími hjá fólki og því er þetta oftast ekki heppilegur tími, nema fólk sé hreinlega búið að ákveða að taka að sér kött.“

Halldóra segir að fólk verði að gefa sér tíma í ákvörðunina.

„Það er mun sniðugra að koma til okkar og fá gjafabréf til þess að gefa. Við erum að bjóða upp á slíkt. Þá er hægt að mæta hingað eftir áramót og velja sér kött. Það er reyndar oft sagt að kötturinn velji sér eiganda og því er sú leið mun betri.“

Halldóra segir að það sé nokkuð algengt að fólk reyni að skila köttum eftir jól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×