Fótbolti

Keflvíkingar fá tugi milljóna fyrir söluna á Arnóri Ingva

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Keflavík fær milljónir í sinn hlut fyrir að ala upp Arnór Ingva og semja vel.
Keflavík fær milljónir í sinn hlut fyrir að ala upp Arnór Ingva og semja vel. mynd/norrköping
Eins og kom fram fyrr í dag er sænska meistaraliðið IFK Norrköping búið að selja íslenska landsliðsmanninn Arnór Ingva Traustason til Rapid Vín í Austurríki.

Arnór Ingvi var keyptur fyrir metfé, en samkvæmt heimildum Vísis borgaði austurríska félagið tvær milljónir evra fyrir leikmanninn eða 280 milljónir íslenskra króna.

Þegar Keflavík seldi Arnór Ingva til Norrköping 2014 var klásúla í kaupsamningnum um að Keflavík fengi prósentu af næstu sölu, samkvæmt heimildum.

Samkvæmt heimildum Vísis fær Keflavík 40 milljónir króna í sinn hlut strax. Með árangurstengdum greiðslum verður kaupverðið á endanum 2,3 milljónir evra eða 323 milljónir íslenskra króna.

Keflavík fær því tæplega 50 milljónir króna í sinn hlut þegar allar greiðslur verða klárar, samkvæmt heimildum Vísis, en má því geta sér til um að Keflavík hafi samið um 15 prósent af næstu sölu samkvæmt tiltölulega einfaldri stærðfræði.

Milljónirnar hætta ekki að streyma inn þarna hjá Keflavík heldur fær félagið einnig um níu milljónir króna í uppeldisbætur þar sem Arnór Ingvi var á mála hjá félaginu frá 16 ára aldurs og þar til hann fór þegar hann var tvítugur.

Keflavík á 2,75 prósent í uppeldisbótunum (sem eru 5 prósent í heildina) en Njarðvík á 0,75 prósent og fær um 2,5 milljónir í sinn hlut. Norrköping á 1,5 prósent í uppeldisbótunum þar sem Arnór Ingvi var á mála hjá sænska félaginu frá 21-23 ára. Svíarnir fá um fimm milljónir í sinn hlut.

Í heildina fær Keflavík vel ríflega 50 milljónir króna fyrir söluna á Arnóri frá Norrköping til Rapid Vín þegar allt er talið saman. Fínasta búbót það á erfiðum tímum en Suðurnesjaliðið féll niður í 1. deildina síðasta sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×