Fótbolti

Kaupin á Ödegaard voru fjölmiðlabrella

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ödegaard ásamt Emiliano Butragueno er hann var keyptur til félagsins.
Ödegaard ásamt Emiliano Butragueno er hann var keyptur til félagsins. vísir/getty
Carlo Ancelotti, fyrrum þjálfari Real Madrid, hefur greint frá raunverulegri ástæðu þess að Real Madrid keypti 16 ára gamlan Norðmann.

Það var í janúar árið 2015 sem Norðmaðurinn Martin Ödegaard varð heimsfrægur aðeins 16 ára að aldri. Hann var þá keyptur á 416 milljónir króna til Real Madrid frá Strömsgodset.

Ödegaard hefur einu sinni komið við sögu hjá aðalliðinu en annars er hann að spila með B-liði félagsins.

„Er forseti félagsins kaupir norskan knattspyrnumann þá verður maður bara að taka því. Forsetinn ákvað síðan að hann myndi spila þrjá leiki með aðalliðinu til þess að auglýsa hann,“ sagði Ancelotti um ástæður þess að Ödegaard var keyptur.

„Það hefði ekki skipt mig neinu máli ef hann hefði verið besti leikmaður heims. Þetta var ekki leikmaður sem ég bað um. Þessi kaup voru bara fjölmiðlabrella.“

Hinn 17 ára gamli Ödegaard á enn eftir að sanna mikið en flestir eru nú sammála um að þar fari mikið efni. Hann er kominn í norska landsliðið og á framtíðina fyrir sér haldi hann rétt á spöðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×