Innlent

Katrín kannast ekki við sms hótanir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir segir ESB málið erfitt fyrir VG. Mynd/ Daníel.
Katrín Jakobsdóttir segir ESB málið erfitt fyrir VG. Mynd/ Daníel.
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG og formaður flokksráðs, segist ekki vita til þess að þingmönnum hafi verið sendar hótanir með sms skilaboðum í aðdraganda þess að Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, sagði í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið á laugardaginn að einstakir þingmenn hafi fengið send sms skilaboð þegar að atkvæðagreiðslan um málið stóð yfir á Alþingi. Skilaboðin hafi falið í sér hótanir um stjórnarslit yrði málið ekki samþykkt.

„Ég fékk allavega ekki sms hótun," segir Katrín. Hún segist þó ekki geta sagt til um það hvort slíkar skeytasendingar hafi átt sér stað. „En það kann að vera," segir Katrín. Hún bendir á að Ásmundur Einar hafi ekki minnst á það í grein sinni hverjir hafi fengið þessi skeyti, né heldur hverjir hafi sent þau.

Ásmundur Einar segir í grein sinni að á flokksráðsfundi hafi því verið lýst yfir að forsendur fyrir ESB umsókn væru brostnar og því mikilvægt að taka málið til gagngerrar skoðunar. Katrín segir að þó að fram hafi komið á fundinum að mikilvægt væri að taka málið til skoðunar hafi allri efnislegri umræðu um það verið vísað til málefnaþings i haust. „Þannig að það er nú kannski ekki hægt að segja að fundurinn hafi ályktað neitt um það," segir Katrín.

Aðspurð segir Katrín að ESB málið hafi verið flokki sínum erfitt. „Við höfum talið að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins en höfum líka talið að þjóðin ætti að hafa siðasta orðið," segir Katrín. Það liggi hins vegar fyrir að innan flokksins séu líka mjög harðir andstæðingar aðildar og það hafi sitt að segja.




Tengdar fréttir

Þingmönnum Vinstri grænna hótað með SMS

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, segir í grein í Morgunblaðinu í dag, að þingmönnum og ráðherrum Vinstri grænna hafi verið hótað þegar að atkvæðagreiðsla um aðildarumsókn að ESB fór fram í þinginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×