Innlent

Kastljósið sakað um sölumennsku

Jakob Bjarnar skrifar
Páll segir viðskiptamódel Kastljóss vera það að gera samning við MND-félagið um að afhjúpa kuklara en á móti fái MND-sjúklingar sjónvarpstíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Jóhannes gefur ekki mikið fyrir þessa kenningu.
Páll segir viðskiptamódel Kastljóss vera það að gera samning við MND-félagið um að afhjúpa kuklara en á móti fái MND-sjúklingar sjónvarpstíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Jóhannes gefur ekki mikið fyrir þessa kenningu. Vísir
Fréttamagasín Ríkissjónvarpsins, Kastljósið, vakti mikla athygli í gær vegna þáttar um meinta sölumenn snákaolíu, sem gera sér örvinglan sjúkra að féþúfu. Ekki eru allir jafn hrifnir af efnistökum Kastljóssins, þeirra á meðal er Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og kennari, en hann hefur meðal annars fengist við að kenna nemendum í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands siðfræði.

Páll skrifar pistil á bloggsíðu sína sem hann nefnir „Kastljós, kukl og sala á sjónvarpstíma“. Þar greinir hann aðferðarfræði Kastljóssins og segir nokkurn aðdraganda að umræddum þætti Kastljósfólks. „Umfjöllunin hófst í gær með ítarlegri frásögn af nokkrum þeim sem glíma við sjúkdóminn. Rauði þráðurinn í þeirri umfjöllun var að stórbæta þurfi þjónustuna við MND-sjúklinga og kaupa nýrri og betri tæki handa þeim,“ skrifar Páll.

Þátturinn í gærkvöldi var svo helgaður sölumönnum kuklsins og þeir afhjúpaðir með aðstoð falinna myndavéla, segir Páll og svo setur hann fram kenningu sína:

„Viðskiptamódel Kastljóss er þetta: Kastljós gerir samning við forsvarsmenn MND-félagsins um að afhjúpa kuklara - enda er það gott sjónvarpsefni - en á móti fá MND-sjúklingar sjónvarpstíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ef Kastljós fær verðlaun fyrir þessa frammistöðu er álitamál hvort þau ættu að koma frá Blaðamannafélaginu eða Félagi almannatengla,“ skrifar Páll.

Rannsóknarsjónvarpsmaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson, sem fór fyrir Kastljósumfjölluninni í gærkvöldi, gefur sannast sagna ekki mikið fyrir þessar kenningar Páls. En, honum er brugðið því hann skrifar á Facebook-vegg sinn: „Það hefur oft verið skrifað um fréttir sem ég hef unnið að, en þennan pistil Páls ætla ég að ramma inn og hengja uppá vegg. Það er bara ekki annað hægt!“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×