Enski boltinn

Karius færist nær Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karius hefur varið mark Mainz 05 undanfarin þrjú ár.
Karius hefur varið mark Mainz 05 undanfarin þrjú ár. vísir/getty
Flest bendir til þess að Liverpool sé að festa kaup á þýska markverðinum Loris Karius frá Mainz 05. Talið er að Liverpool borgi 4,7 milljónir punda fyrir Þjóðverjann.

Karius, sem verður 23 ára í næsta mánuði, mun gangast undir læknisskoðun hjá Liverpool einhvern tímann á næsta sólarhring en búist er við því að félagið staðfesti kaupin á honum á allra næstu dögum.

Karius var um tíma á mála hjá Manchester City en lék aldrei fyrir aðallið félagsins. Hann sneri aftur til heimalandsins 2011 og gekk til liðs við Mainz.

Karius hefur verið aðalmarkvörður Mainz undanfarin þrjú ár en hann lék alla 34 leiki liðsins í þýsku úrvalsdeildinni í vetur. Mainz endaði í 6. sæti deildarinnar og mun spila í Evrópudeildinni á næsta tímabili.

Karius mun berjast um markmannsstöðuna hjá Liverpool við Belgann Simon Mignolet sem skrifaði undir nýjan fimm ára samning við félagið í vetur.

Karius er þriðji leikmaðurinn sem kemur til Liverpool í sumar en áður voru Joel Matip og Marko Grujic búnir að semja við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×